Hvernig var þetta mögulegt?

Bobby Jones með verðlaunagripina árið 1930.
Bobby Jones með verðlaunagripina árið 1930.

Ætli saga afreksíþróttamanna heimsins geymi athyglisverðari einstakling en Bobby Jones? Um slíkt er endalaust hægt að velta vöngum enda er horft á afreksfólkið í gegnum mismundandi gleraugu. Spurningar sem þessar þjóna heldur ekki neinum tilgangi öðrum en að æsa upp íþróttaunnendur sem kannski eru alveg nógu æstir fyrir.

Bandaríski kylfingurinn Bobby Jones fór ekki troðnar slóðir þegar hann sló í gegn bæði í Bandaríkjunum og Evrópu á millistríðsárum 20. aldarinnar en það sem honum auðnaðist að koma í verk meðfram því að vera snjallastur í sinni íþrótt er nokkuð sem erfitt er að leika eftir.

Fyrir hvað er Bobby Jones frægastur í golfíþróttinni? Jú hann er eini kylfingurinn sem unnið hefur slemmuna (Grand Slam). Það felur í sér að vinna öll fjögur risamótin á sama árinu. Hér má skjóta því inn í að Tiger Woods náði þeim magnaða árangri að vera meistari allra mótanna á sama tíma en hjá Tiger skiptist það á milli ára. Hann vann þrjú mót á árinu 2000 eða sjötíu árum eftir að Bobby Jones lék listir sínar og Tiger bætti þeim fjórða við á Masters í apríl 2001.

Hægt væri að setjast niður og skrifa í marga daga um Bobby Jones en það væri meira en fréttastjóri íþróttafrétta á Mbl. myndi láta bjóða sér og þessi grein í Sögustundinni verður því að duga en vonandi ramba einhverjir á hana sem ekki þekkja sögu Bobbys Jones.

East Lake var heimavöllurinn

Þegar spekingar velta fyrir sér besta kylfingi frá upphafi hjá körlunum eru Jack Nicklaus og Tiger Woods gjarnan nefndir til sögunnar. Þeir eru sigursælastir á risamótunum (major tournaments) frá upphafi. Þegar fleiri eru nefndir í sömu andrá eru það yfirleitt Bobby Jones og Ben Hogan sem komast á blað.

Bobby Jones og Jack Nicklaus árið 1957.
Bobby Jones og Jack Nicklaus árið 1957. Ljósmynd/Jack Nicklaus safnið

Jones fæddist í Atlanta í Georgíuríki árið 1902 og hét Robert Tyre Jones. Lífið í suðurríkjunum í Bandaríkjunum var ansi ólíkt lífinu á austurströnd Skotlands á þessum tíma, og er enn, en engu að síður fór það svo að um hálfri öld síðar var Jones gerður að nokkurs konar heiðursborgara í St. Andrews. Slík voru áhrif hans á bæinn sem kallaður er vagga golfsins og íbúa þar.

Jones komst fljótt í kynni við golfíþróttina en nú vill svo til að heimavöllur hans í Atlanta er býsna frægur völlur: East Lake Golf Club. Völlurinn hefur hýst keppni um Ryder-bikarinn sem og PGA-meistaramótið. Ef til vill var það gæfa Jones að golfkennarinn í klúbbnum var skoskur, Stewart Maiden að nafni, og hafði víst töluverð áhrif á Jones. Maiden var frá bænum Carnoustie en þar lék Haraldur Franklín Magnús á Opna breska meistaramótinu (The Open) meira en öld eftir að Maiden hóf að þjálfa Jones.

Ekki var því haldið sérstaklega að Jones að leggja golfíþróttina alfarið fyrir sig. Þvert á móti var lögð áhersla á að hann myndi ganga menntaveginn en golfið gæti verið áhugamál hjá honum. Þegar hæfileikarnir fóru að koma í ljós var ljóst að áhugamálið gæti orðið stórmál en Jones hélt sig þó við áhugamennskuna. Hann gerðist aldrei atvinnumaður, og keppti því ekki um peningaverðlaun, en varð besti kylfingur heims og einn dáðasti íþróttamaður í Bandaríkjunum.

Notaði ekki stálsköft

Þótt langt sé síðan Jones var upp á sitt besta eru sem betur fer til ágætar heimildir um getu mannsins. Ekki einungis á hve mörgum höggum hann lék fræga golfvelli heldur eru til hreyfimyndir af honum sveifla og upplýsingar um högglengd. Paul Runyan, sem sigraði tvívegis á PGA-meistaramótinu, keppti á móti Jones og lýsti því síðar að Jones hefði getað slegið upphafshögg um 280 metra. Runyan lýsir því með þeim hætti að Jones hafi lengt sveifluna þegar hann vildi slá lengra og hafi stundum gert það á par 5-holum. Takturinn í sveiflu Jones var afar góður og átökin voru lítil en tæknin þeim mun betri.

Högglengd Jones hefur í raun verið gífurlega mikil því hann notaðist við kylfur með svokölluðu hickory-skafti sem var einhvers konar tréskaft. Með öðrum orðum þá voru stálsköftin ekki komin til sögunnar en þau gerðu kylfingum kleift að slá mun lengra. (Svo ekki sé minnst á boltana og breytingarnar sem þar hafa orðið.) Þegar stálsköftin komu til sögunnar nýttu keppinautar Jones sér það en hann hélt sig við hickory-sköftin. Hann æfði ekki það mikið á þeim tímapunkti að líklega hefur honum ekki fundist góð hugmynd að skipta um búnað. En Jones vann slemmuna árið 1930 þegar keppinautarnir, atvinnumenn í íþróttinni, höfðu notað stálsköft í nokkur ár. Sú staðreynd ein og sér sýnir ofboðslega getu hjá manninum. 

Jones gat einnig lært af reynslunni eins og sigursælir íþróttamenn gera. Sem ungur kylfingur fór hann í sína fyrstu heimsókn til St. Andrews og keppti á Old Course í fyrsta skipti á Opna breska árið 1921. Golf hafði þá verið iðkað í einhverri mynd á landareigninni í rúm fjögur hundruð ár og því var nafnið Old Course orðið viðeigandi á þeim tíma. Sá gamli hafði betur í glímunni við unga snillinginn sem tekið hafði sér far með skipi frá Bandaríkjunum til að reyna sig við frægasta golfvöll heims. Á þriðja keppnisdegi brast eitthvað í keppnismanninum Jones sem strunsaði heim í skála eftir ellefu holur. Reif auk þess skorkortið og fékk frávísun úr mótinu eins og reglurnar gera ráð fyrir. 

Varð þekktur fyrir háttvísi

Á þessu augnabliki þótti Jones ekki mikið til Old Course koma en fyrir þá sem ekki þekkja eru strandvellirnir í Skotlandi nokkuð frábrugðnir völlunum í Bandaríkjunum. Jones hafði þó nægilegan þroska til að átta sig á að hann hefði ekki einungis gert rangt heldur einsetti hann sér að glíma aftur við Old Course og sýna þá vellinum tilhlýðilega virðingu. Jones var orðinn það þekktur sem áhugamaður að þessi mistök vöktu athygli og var um þau fjallað í fjölmiðlum. Skaðaði þetta vafalítið orðspor hans um tíma en það sem eftir lifði keppnisferilsins var hann ekki þekktur fyrir annað en drengskap og faglega framkomu.

Bobby Jones.
Bobby Jones.

Líklega var honum aldrei hælt eins mikið fyrir framkomu sína á velli eins og í Opna bandaríska meistaramótinu árið 1925 þegar Jones dæmdi víti á sjálfan sig þar sem hann taldi boltann hafa hreyfst úr stað þegar hann lagði kylfuna niður. Gerðist þetta á fyrsta hring og reyndi Walter Hagen, sem var í sama ráshópi, að telja Jones ofan af þessari ákvörðun. Jones þóttist viss í sinni sök og bætti á sig höggi eins og reglurnar kveða á um. Þegar upp var staðið kostaði vítahöggið hann sigurinn í mótinu.

Jones var undrandi þegar fjölmiðlamenn hrósuðu honum fyrir framkomuna og svaraði: „Hvers vegna hrósið þið mér þá ekki einnig fyrir að ræna ekki banka?“

Götum lokað á Manhattan

Næst sigldi Jones til St. Andrews árið 1927 og vann Opna breska á Old Course. Sigraði hann þá á mótinu annað árið í röð. Bætti hann ekki einungis upp fyrir hneykslið árið 1921 heldur hófst þar merkilegt vináttusamband hans við íbúa bæjarins. Þegar sigurinn var í höfn þustu þúsundir manna úr áhorfendaskaranum að sigurvegaranum og báru hann á gullstól. Jones lýsti því yfir við miklar vinsældir að hann myndi ekki sigla með verðlaunagripinn, The Claret Jug, heim til Bandaríkjanna heldur yrði kannan geymd í St. Andrews en þá hafði þegar verið keppt um gripinn í 55 ár.

Þegar Jones náði slemmunni árið 1930 kom hann við í St. Andrews. Breska áhugamannamótið fór fram á Old Course árið 1930. Jones sigraði og hafði skömmu áður unnið Opna breska meistaramótið á Royal Liverpool. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum og á Bretlandi fóru á flug við þessi tíðindi. Nú voru tvö risamót eftir í Bandaríkjunum og spurningin vaknaði hvort Jones gæti tekist hið ómögulega.

Þegar Jones kom siglandi heim til Bandaríkjanna var götum í New York lokað og blásið til skrúðgöngu á Manhattan þar sem Bobby Jones var ekið eftir götunum í opnum bíl og veifaði til mannfjöldans. Ekki hafa nú íbúar í New York alltaf verið jafn hrifnir af suðurríkjamönnum og akkúrat þarna.

Bobby Jones á rúntinum í gegnum Manhattan sumarið 1930.
Bobby Jones á rúntinum í gegnum Manhattan sumarið 1930.

Á þessum árum samanstóðu risamótin fjögur af tveimur áhugamannamótum og tveimur mótum þar sem atvinnumenn voru með. Áhugamannamótin bresku og bandarísku hafa ávallt verið sterk mót og Tiger Woods vann til að mynda bandaríska áhugamannamótið þrjú ár í röð áður en hann gerðist atvinnumaður. Opna bandaríska og Opna breska voru svo einnig talin með sem risamót. Masters-mótið kom til sögunnar síðar og var í framhaldinu farið að telja Masters og PGA-meistaramótið með Opna breska og Opna bandaríska sem risamótin hjá körlunum í íþróttinni.

Pressan jókst smám saman á Bobby Jones árið 1930 en hann stóðst hana. Sigraði hann á Opna bandaríska meistaramótinu á Interlachen í Minnesota í júlí 1930 og þurfti að bíða fram í september eftir fjórða mótinu, Bandaríska áhugamannamótinu. Fór það fram hjá Merion-klúbbnum í Pennsylvaníu og tryggði Jones sér sigurinn með fimmtán metra pútti á síðustu holunni. Viðeigandi endir á glæsilegu afreki. Þótt einungis hafi verið um áhugamannamót að ræða gerði sú staða sem Jones var í það að verkum að um tuttugu þúsund manns fylgdust með síðasta keppnisdeginum.

Þrjár háskólagráður

Bobby Jones mun ávallt eiga sérstakan sess í sögu golfíþróttarinnar. Áhugamaðurinn sem skákaði atvinnumönnum sem unnu við það að leika golf. Íþróttin naut töluverðra vinsælda og lifðu frægir kylfingar ágætu lífi með því að ferðast um og keppa. Breskir kylfingar voru þekktir í Bandaríkjunum og bandarískir á Bretlandseyjum. Sögulega góðir kylfingar voru á meðal þeirra sem Jones glímdi við eins og Walter Hagen sem vann ellefu risamót og Gene Sarazen sem vann sjö risamót.

Samkvæmt frásögnum lék Jones á fullorðinsárum ekki meira golf en áhugasamur klúbbmeðlimur. Hann bjó vitaskuld að góðum grunni og nýtti hvert tækifæri til að leika golf á uppvaxtarárum en hæfileikarnir voru bara með ólíkindum miklir. Með búnaði þess tíma gat hann leikið heimsfræga velli á 70 höggum undir pressu í stórmótum.

Bobby Jones þótti glæsilegur á velli.
Bobby Jones þótti glæsilegur á velli. Ljósmynd/PGA Tour

En þetta er hins vegar ekki helsta ástæða þess að hér í upphafi var þeirri spurningu varpað fram hvort til væru áhugaverðari einstaklingar í afreksíþróttunum. Þegar Jones vann slemmuna árið 1930 hafði hann þá þegar náð sér í háskólagráðu í verkfræði frá Georgia Tech, í bókmenntum frá Harvard og í lögfræði frá Emery-lagaskólanum í Atlanta. Auk þess hafði hann tekið málflutningsréttindi sem lögmaður. Hvernig er þetta mögulegt?

Til að ganga endanlega fram af lesendum má hér bæta við að líklega var illviðráðanlegur sjúkdómur farinn að gera vart við sig hjá Jones að einhverju marki. Sá vágestur átti þó eftir að færast í aukana í síðar og olli lömun. Jones vildi lítið ræða um veikindin og því er lítið hægt að fullyrða um hvenær þau fóru fyrst að hafa áhrif.

Þegar staðan var orðin alvarleg spurði blaðamaður, sem lengi hafði fjallað um Bobby Jones, út í veikindin. Jones vildi einungis greina honum frá veikindunum í trúnaði og gerði það. Bætti svo við að í þessu lífi yrðu kylfingar að slá boltann þar sem hann lægi og lagði til að þeir ræddu aldrei aftur um sjúkdóminn.

Fann heppilega landareign í Georgíu

Hvort veikindin hafi ráðið því að Jones dró sig í hlé upp úr 1930 sem afrekskylfingur er ekki gott að segja til um. Hann hafði þá unnið þrettán risamót á sjö ára tímabili og var aðeins 28 ára gamall. Hann hafði hins vegar aldrei ætlað að láta íþróttina stjórna lífi sínu. Minnti gjarnan á að golf væri einungis leikur og þar sem hann var með fangið fullt af háskólagráðum gat hann auðveldlega snúið sér að því að afla sér lífsviðurværis með öðrum hætti. Jones valdi lögmennskuna eins og fleiri í fjölskyldunni.

Frá Augusta National.
Frá Augusta National. AFP

Beinum áhrifum Jones á golfíþróttina lauk hins vegar ekki þegar hann dró saman seglin sem keppnismaður. Hann fann land í heimaríkinu Georgíu sem honum þótti tilvalið undir golfvöll. Jones var orðinn svo frægur að fólk bar kennsl á hann hvert sem hann fór í Bandaríkjunum. Gældi hann við þá tilhugsun að huggulegt gæti verið að sleppa við áreitið með því að leika golf í einkaklúbbi með fjölskyldu og vinum. Festi hann kaup á landinu og fékk Alistair MacKenzie til að hanna völlinn með sér. Völlurinn var opnaður árið 1933 og líklega geta íþróttaunnendur verið sammála Bobby Jones um að landið hafi hentað vel undir golfvöll. Völlurinn sem um ræðir er Augusta National og þar hefur Masters-mótið farið fram síðan 1934. Er hægt að skilja eftir sig mikið betri arfleifð í golfíþróttinni?

Vegna aðkomu Jones að Augusta National á fólk það til að ruglast á honum og golfvallahönnuðinum Robert Tyre Jones sem hannaði um 500 golfvellli í 35 löndum. Nöfnin eru óneitanlega lík.

Bobby Jones eyddi lokakafla ævinnar í hjólastól vegna lömunarveikinnar og lést í Atlanta 18. desember 1971. Hann varð því 69 ára gamall en eiginkonan Mary lést fjórum árum síðar.

Bobby is back!

Lífshlaup Bobbys Jones var á vissan hátt lygilegra en hollywoodmynd. Um hann var gerð leikin kvikmynd þar sem Jim Caviezel fékk það hlutverk að leika Jones en Bobby Jones eru einnig gerð ágæt skil í kvikmyndinni The Legend of Bagger Vance. Þá hafa verið skrifaðar bækur og gerðar heimildamyndir um ævi Jones. Í einni heimildamyndinni er sir Sean Connery sögumaður. Ef til vill segir það eitthvað um hversu stórt nafn Bobby Jones er í Skotlandi.

Bobby Jones með silfurkönnuna árið 1927.
Bobby Jones með silfurkönnuna árið 1927. AP

Eins og áður var komið inn á var Bobby Jones gerður að einhvers konar heiðursborgara í St. Andrews sem kallað er The Freedom Of The City. Jones átti erindi til St. Andrews árið 1958 vegna World Amateur Team Championship þar sem hann hafði hlutverki að gegna sem liðsstjóri bandaríska liðsins. Sjálfur hafði hann leikið sinn síðasta golfhring tíu árum áður. Yfirvöld í St. Andrews nýttu tækifærið til að heiðra Jones og 1.700 manns troðfylltu samkomuhúsið. Þegar á staðinn var komið komst Jones að því að hann var einungis annar Bandaríkjamaðurinn til að hljóta slíkan heiður í St. Andrews. Hinn var Benjamin nokkur Franklin og hafði hann verið heiðraður tveimur öldum áður.

Til er skemmtileg saga af vinsældum Bobbys Jones í St. Andrews. Árið 1936 var hann á leiðinni sem áhorfandi á Ólympíuleikana í Berlín. Á leið sinni frá Bandaríkjunum fannst honum tilvalið að koma við í St. Andrews en gerði þó ekki boð á undan sér umfram það að útvega sér rástíma og meðspilara. Þegar Jones fór út á völl og glímdi við gamla völlinn hafði spurst út á meðal bæjarbúa að von væri á Bobby Jones og voru þegar tvö þúsund áhorfendur mættir jafnvel þótt um hversdagslegan hring væri að ræða. Fleiri hringi átti Jones ekki eftir að leika á vellinum.

Á meðan Jones lék golf í vöggu íþróttarinnar spurðist enn frekar út á meðal bæjarbúa að Bobby Jones væri úti á velli. Þeir sem ætluðu sér að fara í verslanir í St. Andrews þann daginn komu að luktum dyrum. Í gluggum verslana var miði með einföldum skilaboðum: Bobby is back! Þegar hringnum lauk voru áhorfendur orðnir þrjú þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert