Trump heiðraði Íslandsvinkonu

Sænski kylfingurinn Annika Sörenstam tók í kvöld við orðu sem er mesti heiður sem óbreyttum borgara getur verið sýndur í Bandaríkjunum. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, veitti henni orðu sem kallast Presidential Medal of Freedom en Sörenstam heimsótti Ísland sumarið 2018 og Morgunblaðið ræddi við hana 27. maí. 

Nokkuð er síðan Sörenstam hætti keppni en hún hafði þá afrekað meira en flestar aðrar. Er sú tekjuhæsta á LPGA-mótaröðinni og vann tæplega 100 atvinnumannamót. Hún er eina konan sem leikið hefur á 59 höggum á mótaröðinni, vann risamótin tíu sinnum og var tvívegis valin íþróttakona ársins í heiminum af AP fréttaveitunni. 

Þrjú fengu orðuna hjá forsetanum í kvöld. Gamla brýnið Gary Player, kylfingur frá Suður-Afríku fékk einnig orðuna sem og Babe Didrikson Zaharias sem var mikil kempa og má lesa um hana í grein Morgunblaðsins frá árinu 2017. Hún gat ekki veitt orðunni viðtöku þar sem Babe Didrikson lést árið 1956 úr krabbameini, aðeins 45 ára gömul. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert