Hætta við að halda stórmótið á velli Trumps

Áhorfendur á Trump Bedminster-golfvellinum í New Jersey.
Áhorfendur á Trump Bedminster-golfvellinum í New Jersey. AFP

Samtök bandarískra atvinnukylfinga, PGA, hafa tilkynnt að árlega meistaramótið þeirra verði ekki haldið á golfvellinum Trump Bedminster í New Jersey á árinu 2022 eins og til stóð, en sá völlur er í eigu Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta.

Forseti samtakanna, Jim Richerson, sagði í yfirlýsingu að á fundi í gærkvöldi hefði stjórn PGA samþykkt í atkvæðagreiðslu að nýta rétt sinn til að rifta samningnum um að mótið árið 2022 yrði haldið á vellinum.

Ákvörðun um mótshaldið var tekin árið 2012, fjórum árum áður en Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, og þetta hefði verið í fyrsta skipti sem eitt af stórmótunum í karlaflokki hefði farið fram á velli í hans eigu. Bedminster var hins vegar keppnisstaðurinn á lokamóti PGA í kvennaflokki árið 2017.

Þrír vellir eru sagðir koma helst til greina, Bethpage Black á Long Island í New York, Southern Hills í Tulsa í Oklahoma og Valhalla í Louisville í Kentucky.

„Það er búið að setja okkur í pólitíska stöðu, án okkar vilja. Við erum fulltrúar okkar félaga, íþróttarinnar og vörumerkisins. Hvernig verndum við það best? Okkar tilfinning var sú að eftir hina sorglegu atburði á miðvikudagskvöldið gátum við ekki lengur haft Bedminster sem keppnisvöll á okkar vegum. Það hefði valdið okkur óbætanlegu tjóni. Það eina sem við gátum gert var að hætta við,“ sagði Seth Waugh, framkvæmdastjóri PGA, við fréttastofu AP, og vitnaði þar að sjálfsögðu til innrásar stuðningsfólks Trumps í bandaríska þinghúsið í síðustu viku.

Hjá Trump-stofnuninni eru viðbrögðin við þessari ákvörðun hörð. „Hér er verið að brjóta gegn samningi og þeir hafa engan rétt til að rifta honum. Við höfum fjárfest margar milljónir dollara í PGA-meistaramótinu 2022,“ sagði fulltrúi Trump Organization við ABC.

mbl.is