Englendingurinn á meðal fimm efstu

Tyrrell Hatton
Tyrrell Hatton AFP

Englendingurinn Tyrrell Hatton er kominn upp í 5. sæti heimslista karla í golfi eftir sigur í Abu Dhabi á Evrópumótaröðinni í gær og er þetta í fyrsta skipti sem hann er á meðal fimm efstu á listanum. 

Hatton sigraði á 18 höggum undir pari og sló Rory McIlroy við sem hafði forystu fyrir lokadaginn. 

Hatton hefur verið á uppleið á undanförnum árum og var öflugur á síðasta ári. Vann hann þá sinn fyrsta sigur á PGA-mótaröðinni. 

Dustin Johnson er sem fyrr í efsta sæti listans. Jon Rahm er annar, Justin Thomas þriðji og Collin Morikawa sem sigraði á PGA-meistaramótinu í fyrra er í fjórða sæti. 

mbl.is