Valdís sér fram á að keppa erlendis í sumar

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir hefur verið að glíma við meiðsli …
Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir hefur verið að glíma við meiðsli í baki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítið fór fyrir afrekskylfingnum Valdísi Þóru Jónsdóttur frá Akranesi á síðasta ári. Í marga mánuði lágu alþjóðleg mót erlendis niðri vegna kórónuveirunnar og þegar líða tók á árið voru bakmeiðsli farin að taka sinn toll hjá Valdísi. Í Morgunblaðinu 2. september síðastliðinn sagðist hún ætla að taka sér hvíld frá keppni þar til í janúar.

Útlitið hjá Valdísi er nú mun betra en hún sér fram á að keppa aftur í Evrópumótaröðinni í sumar. „Ég er bara mjög bjartsýn,“ sagði Valdís þegar Morgunblaðið kannaði stöðuna á henni í gær.

Snúið reyndist að finna út úr því hvað olli því að Valdís fann fyrir miklum sársauka þegar hún sneri upp á líkamann eins og afrekskylfingar gera í golfsveiflunni. En það tókst og Valdís er bjartsýn á framhaldið af þeim sökum.

„Staðan á meiðslunum sem ég glímdi við síðasta sumar er mjög góð. Taug, sem kemur úr mænunni og fer fram með neðsta rifbeininu og nánast fram í maga, var klemmd. Er það víst mjög sjaldgæft og læknirinn sem greindi mig hafði einu sinni áður fengið svona tilfelli. Ég veit því ekki í hvaða fimleikum ég var fyrst mér tókst þetta,“ sagði Valdís og hló en í framhaldinu var hægt að takast á við vandann.

Sárt en viðráðanlegt

„Ég komst að hjá frábærum lækni, Ragnari Jónssyni, í nóvember og fór í sprautur en hann uppgötvaði hvað var að. Fyrst prófaði hann að setja stera í kringum þetta en það dugði ekki til. Þá var sprautað í taugina og aðra við hliðina en einnig notaðar rafbylgjur. Ég finn alla vega ekki fyrir þessu sem er mjög kærkomið,“ sagði Valdís en hún hefur fengið verki á tveimur stöðum í bakinu. Hún er vongóð um að tekist hafi að koma í veg fyrir að taugin angri hana og hefur minni áhyggjur af því sem hefur angrað hana ofar í bakinu og lét fyrr á sér kræla.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert