Nýr landsliðsþjálfari hjá GSÍ

Ólafur Björn Loftsson á Íslandsmótinu í golfi í fyrra.
Ólafur Björn Loftsson á Íslandsmótinu í golfi í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Golfsamband Íslands tilkynnti í dag að Ólafur Björn Loftsson hafi verið ráðinn afreksstjóri hjá sambandinu. 

Ólafur tekur við starfinu af Englendingnum Gregor Brodie sem gegnt hefur starfinu síðan í mars 2019. Heimsfaraldurinn hefur gert það að verkum að erfiðara varð fyrir Brodie að sinna starfinu. 

Eitt af verkefnum afreksstjóra hjá GSÍ er að velja landsliðin og stýra þeim auk þess að vera íslenskum afrekskylfingum innan handar eins og mögulegt er. 

Ólafur hefur starfað í golfhreyfingunni á undanförnum árum. Hefur verið framkvæmdastjóri PGA á Íslandi og aðstoðað íslenska kylfinga við að fá skólastyrki í bandarískum háskólum. 

Ólafur varð Íslandsmeistari í golfi á eftirminnilegan hátt í Grafarholtinu árið 2009 og er eini íslenski kylfingurinn sem komist hefur inn á mót á PGA-mótaröðinni bandarísku. Keppti hann á Wyndham Championship haustið 2011 eftir að hafa komist inn í gegnum úrtökumót í N-Karólínuríki. 

Í fréttatilkynningu frá GSÍ er að finna viðbrögð frá Ólafi og Brynjar Geirssyni framkvæmdastjóra GSÍ. 

mbl.is