Agalegt klúður á mótaröð þeirra bestu (myndskeið)

Sergio Garcia hefur átt í smá vandræðum um helgina.
Sergio Garcia hefur átt í smá vandræðum um helgina. AFP

Lee Westwood er efstur fyrir lokahringinn á Players-meist­ara­mót­inu í golfi sem fram fer í Flórída þessa helgina en keppnin er hluti af PGA-mótaröðinni. Englendingurinn er sem stendur með tveggja högga forystu.

Westwood trónir á toppnum á alls 13 höggum undir pari en hann lék annan hringinn verulega vel í fyrradag, eða á 66 höggum sem er sex undir pari vallarins, og svo þriðja hringinn á 68 höggum.

Stutt er þó á milli manna í toppbaráttunni. Bryson DeChambeau er annar á 11 höggum undir pari og þeir Justin Thomas og Doug Ghim eru svo jafnir í 3.-4. sæti á tíu höggum undir. Aðeins hefur fatast flugið hjá Spánverjanum Sergio Garcia sem er nú jafn í áttunda sæti á átta höggum undir pari en hann er kannski enn að jafna sig eftir klúðrið á föstudaginn.

Garcia var frábær á fyrsta hring, lék hann á 65 höggum, en var í tómu tjóni daginn eftir. Á 15. holu tókst honum ekki að pútta fyrir fugli af um sjö metra færi en það sem verra er, þá klúðraði hann næsta höggi á eftir.

mbl.is