Vann sitt fyrsta mót síðan 2017

Jordan Spieth sáttur eftir að hafa unnið sinn fyrsta PGA-titil …
Jordan Spieth sáttur eftir að hafa unnið sinn fyrsta PGA-titil í tæp fjögur ár. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth sigraði á Valero Texas mótinu í San Antonio í Texas í Bandaríkjunum á PGA-mótaröðinni í golfi í kvöld. Þetta var fyrsti mótssigur Spieth í tæp fjögur ár, eða síðan hann sigraði á opna breska meistaramótinu í Royal Birkdale sumarið 2017.

Margir snjallir kylfingar hafa þurft að sætta sig við nokkurra ára bið á milli sigra þar sem samkeppnin er mikil en fáir bjuggust við að það yrði hlutskipti Spieth. Hann var mjög sigursæll þrátt fyrir ungan aldur og hafði unnið á þremur af risamótunum fjórum þegar hann var einungis 24 ára. 

En eftir það lét næsti sigur bíða eftir sér þar til í San Antonio í gærkvöldi en Spieth er nú 27 ára og fram undan er Masters-mótið á Augusta National. Þar hefur Spieth oftar en ekki náð sér vel á strik og sló raunar í gegn fyrir alvöru á Masters sem ungur kylfingur. 

Spieth lauk leik á samtals 18 undir pari en Charley Hoffman kom næstur á 16 undir pari og Englendingurinn Matt Wallace lék á 14 undir pari. Hefur Spieth nú sigrað tólf sinnum á PGA-mótum á ferlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert