Ekki nógu góður til að leika á Masters

Rickie Fowler þarf að skoða ýmislegt ásamt kylfusveininum ef hann …
Rickie Fowler þarf að skoða ýmislegt ásamt kylfusveininum ef hann á að ná fyrri getu. AFP

Einn vinsælasti kylfingur Bandaríkjamanna síðasta áratuginn, Rickie Fowler, verður að sætta sig við að fylgjast með af hliðarlínunni þegar The Masters hefst á fimmtudaginn á Augusta National í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Fowler gekk illa á golfvellinum í fyrra og hefur ekki náð að bæta sig að ráði sem af er þessu ári. Fyrir vikið er hann ekki lengur á meðal fimmtíu efstu á heimslistanum en kylfingar geta fengið keppnisrétt á Masters út á þá stöðu. 

Fowler var í 95. sæti heimslistans áður en Valero Texas-mótið hófst síðasta fimmtudag í PGA-mótaröðinni. Úr því sem komið var hefði hann þurft að vinna á mótinu til að komast inn á Masters. 

Með sigri á risamóti fá kylfingar mikinn keppnisrétt í mörg ár en Fowler hefur aldrei tekist að vinna á risamóti. Hefur hann hafnað í 2. sæti á þremur þeirra og í 3. sæti á einu þeirra. Miklar væntingar voru gerðar til Fowler um tíma en hann er 32 ára. Árið 2014 var hann undir handleiðslu hins þekkta þjálfara Butch Harmon og hafnaði þá á meðal fimm efstu í öllum fjórum risamótunum. Árið eftir sigraði hann á Players Championship sem er eitt sterkasta golfmót sem er haldið fyrir utan risamótin. 

Fowler missti síðast af Masters árið 2010 en þá var hann aðeins nýliði í PGA-mótaröðinni. Hann hafnaði í 2. sæti á mótinu árið 2018. Fowler hefur fimm sinnum sigrað í PGA-mótaröðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert