Tiger á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða

Tiger Woods keyrði allt of hratt.
Tiger Woods keyrði allt of hratt. AFP

Kylfingurinn Tiger Woods keyrði á tvöföldum löglegum hámarkshraða þegar hann lenti í alvarlegu bílslysi í febrúarlok. Þetta kemur fram í rannsókn lögreglunnar í Los Angeles.

Lögregluyfirvöld í ríkinu greina frá því að Tiger hafi keyrt á 135-140 kílómetra hraða þegar slysið átti sér stað, en hann lenti utan vegar og keyrði á tré á miklum hraða.

Tiger fót- og ökklabrotnaði illa í slysinu og þurfti að gangast undir aðgerð vegna þessa og var heppinn að sleppa lifandi. Ekki er talið að hann hafi verið undir áhrifum lyfja eða áfengis þegar slysið átti sér stað. 

Tiger er á batavegi en óljóst er hvort hann geti nokkurn tímann leikið keppnisgolf framar. 

mbl.is