Gamla ljósmyndin: Á Hvaleyrinni

Ólafur Már Sigurðsson, Björgvin Sigurbergsson og Justin Rose.
Ólafur Már Sigurðsson, Björgvin Sigurbergsson og Justin Rose. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Englendingurinn Justin Rose er efstur þegar Masters-mótið er hálfnað en mótið stendur nú yfir í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Rose var sem sagt efstur eftir tvo keppnisdaga (36) á fimmtudegi og föstudegi en mótinu lýkur annað kvöld. 

Justin Rose kom til Íslands sumarið 2003 og lék þá á Canon-mótinu á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Þá var hann ungur kylfingur, 22 ára, en hafði vakið mikla athygli fimm árum fyrr þegar hann hafnaði í 4. sæti á The Open Championship árið 1998. 

Myndin er tekin á Hvaleyrinni en með Rose á myndinni eru hafnfirsku kylfingarnir Ólafur Már Sigurðsson og Björgvin Sigurbergsson sem léku með Englendingnum í ráshópi. Svo virðist sem Björgvin sé að lýsa aðstæðum fyrir Rose og gæti mögulega verið að segja: „Vertu ekkert að fara út í hraunið. Það er bara vesen.“

Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson eða Golli sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. 

Justin Rose varð ólympíumeistari í golfi þegar íþróttin varð aftur hluti af Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. Hann hefur einu sinni sigrað á risamóti í íþróttinni en hann sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2014. Hefur hann tvívegis hafnað í 2. sæti á umræddu Masters-móti, 2015 og 2017. Með velgengni sinni á golfvellinum í tvo áratugi hefur Rose unnið sér inn um 7 milljarða íslenskra króna. 

mbl.is