Mikil spenna í Japan

Hideki Matsuyama þakkar kylfusveininum fyrir hringinn í kvöld.
Hideki Matsuyama þakkar kylfusveininum fyrir hringinn í kvöld. AFP

Japaninn Hideki Matsuyama hefur fjögurra högga forskot fyrir lokadaginn á Masters-mótinu í golfi á Augusta National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Matsuyama er á ellefu höggum undir pari samtals eftir þrjá hringi en hann átti frábæran hring í kvöld og lék á 65 höggum. 

Atburðarásin var fremur óvænt en aðrir náðu ekki að skora völlinn með viðlíka hætti og Japaninn. Fyrir vikið er hann með býsna gott forskot fyrir lokadaginn. 

Ólympíumeistarinn Justin Rose verður með Matsuyama í síðasta ráshópi á morgun en Rose er á 7 höggum undir pari. Er hann á sama skori og hann var á eftir fyrsta og annan daginn. 

Næstir koma Zander Schauffele, Will Zalatoris og Marc Leishman sem eru á sjö undir pari samtals eins og Rose. 

Segja má að Jordan Spieth og Justin Thomas hafi valdið vonbrigðum á þriðja hringnum. Spieth var á pari og er enn á fimm undir pari. Thomas lék á 75 og er á höggi undir pari. 

Mikill golfáhugi er í Japan en hjá körlunum hefur Japani aldrei sigrað á risamóti. Matsuyama hefur náð langt og var um tíma í öðru sæti heimslistans. En hann hefur ekki unnið risamót og á nú alla möguleika á að ná því. Í ljósi þess hvernig staðan er fyrir lokadaginn má búast við því að sunnudagskvöldið verði fjörugt í Japan. 

Enginn efstu manna hafa unnið Masters. Af þessum fimm efstu er Rose raunar sá eini sem unnið hefur risamót en hann sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2014. 

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert