Stefnt að fjölmennasta golfmóti Íslandssögunnar

Sigurpáll Geir Sveinsson þrefaldur Íslandsmeistari á Kiðjabergsvelli. Myndin er tekin …
Sigurpáll Geir Sveinsson þrefaldur Íslandsmeistari á Kiðjabergsvelli. Myndin er tekin þegar Íslandsmótið fór þar fram árið 2010. mbl.is/Ómar Óskarsson

Golfklúbbur Kiðjabergs stefnir að því að halda í sumar fjölmennasta golfmót sem fram hefur farið hér á landi. 

Fjöldi keppenda í opnum golfmótum miðast gjarnan við hversu marga er hægt að ræsa út við boðleg birtuskilyrði en að hámarki eru fjórir saman í ráshópi. 

Hjá klúbbnum í Kiðjabergi hyggjast menn nýta sér birtuna í júní og ræsa út kylfinga í sólarhring. Samkvæmt frétt á golf.is er áætlað að ræsa fyrstu keppendur út kl 14 föstudaginn 11. juní og verði ræst fram til kl 13:50 laugardaginn 12. júní. 

Ekki er tjaldað til einnar nætur heldur ganga áformin út á að mótið verði árlegur viðburður og aðlaðandi kostur fyrir erlenda ferðamenn sem vilja upplifa að leika miðnæturgolf. 

„Við stefnum á að þetta mót verði sterkt aðdráttarafl fyrir íslenska sem og erlenda kylfinga í framtíðinni. Það er fátt sem jafnast á við að leika golf á þessum árstíma þegar dagsbirtan er til staðar allan sólarhringinn. Kiðjabergsvöllur er að margra mati eitt fallegasta vallarstæði landsins og ég get alveg tekið undir það. Það er tilraunarinnar virði að fara af stað í þetta verkefni og við erum bjartsýn á að þetta gangi nú allt saman mjög vel,“ er m.a. haft eftir Birki Má Birkissyni framkvæmdastjóra Golfklúbbsins Kiðjabergs í fréttinni á golf.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert