Eruð þið ekki að grínast með þessa fyrirsögn?

„Eftir Íslandsmótið á Akureyri 2016 þá hætti ég nánast að lesa það sem var skrifað um mig í fjölmiðlum,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og fyrrverandi atvinnukylfingur, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Valdís Þóra tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hún hefði lagt kylfurnar á hilluna sem afrekskona eftir langvarandi álagsmeiðsli en hún hefur verið einn fremsti kylfingur landsins í áraraðir. 

Valdís er ósátt við það hvernig fjölmiðlar hafa í gegnum tíðina sett afrek kvenna í íþróttum til hliðar þegar kemur að því að velja fyrirsagnir á fréttir.

„Eftir að ég lenti í þriðja sæti á móti í Kína þá kom einhver glötuð fyrirsögn á viðtali sem var tekið við mig. Eina ástæðan fyrir því að ég vissi af þessu var sú að fólk, sem var brjálað yfir fyrirsögninni, var að senda fréttina á mig,“ sagði Valdís.

„Ég fékk matareitrun fyrir þriðja hringinn og sagði í viðtali við blaðamann að ég kæmist alla vega í kjólinn fyrir jólin í einhverju gríni. Allt í einu var það orðið að fyrirsögn þrátt fyrir að ég væri að ná besta árangri sem Íslendingur hefur náð í hæsta gæðaflokki.

Þarna tók ég meðvitaða ákvörðun um að ég ætlaði ekki að gefa fjölmiðlum klikk á fréttir frá mér því ég einfaldlega nennti ekki að standa í þessu. Ef einhver strákur hefði náð þessum árangri hefði þetta aldrei verið sett í fyrirsögn,“ sagði Valdís meðal annars.

Viðtalið við Valdísi í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is