Vaknaði við óboðinn gest um miðja nótt

„Ég hafði mínar efasemdir um atvinnumannaferilinn í byrjun,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og fyrrverandi atvinnukylfingur, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Valdís Þóra ákvað að gerast atvinnukylfingur árið 2013 en hún tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hún hefði lagt atvinnukylfurnar á hilluna eftir langvarandi meiðsli.

Valdís lék í þrjú ár á Evrópumótaröðinni, þeirri næststerkustu í heimi, og náði besta árangri sem Íslendingur hefur náð á alþjóðlegum vettvangi þegar hún hafnaði í þriðja sæti á Sanya-mótinu í Kína 2017 og Bonville-mótinu í Ástralíu 2018.

„Ég var á leið á mót á Spáni og ákvað að gista í tvær nætur í Kaupmannahöfn á leið minni til Spánar þar sem mágur minn var staddur í Danmörku,“ sagði Valdís.

„Fyrstu nóttina vakna ég með veggjalús í rúminu hjá mér og fer gjörsamlega brjáluð niður í móttöku á hótelinu sem ég gisti á og fæ nýtt og stærra herbergi.

„Ég fer snemma að sofa kvöldið eftir og vakna svo við einhvern umgang í herberginu hjá mér, sný mér við, og þar stendur einhver maður sem ég veit ekkert hvernig komst inn í herbergið hjá mér,“ sagði Valdís.

Viðtalið við Valdísi í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert