EuroLeague er víða - alla vega hugmyndin

Rory McIlroy býr sig nú undir að hefja leik á …
Rory McIlroy býr sig nú undir að hefja leik á Wells Fargo mótinu í Norður-Karólínu í dag. AFP

Stofnun EuroLeague, Evrópudeildarinnar í körfuknattleik sem er utan lögsögu regnhlífasamtaka, virðist vera mönnum andagift í mörgum íþróttagreinum. Svo virðist sem heimsfrægir kylfingar hafi fengið tilboð um að keppa í slíkri deild í golfi. 

Félög í knattspyrnuheiminum hafa velt þessu fyrir sér í nokkur ár og létu reyna á stofnun nýrrar deildar í síðasta mánuði með slæmum árangri eins og frægt varð. 

BBC greinir frá því að Dustin Johnson og Justin Rose hafi verið boðnir fimm milljarðar eða jafnvel meira fyrir að taka þátt í ofurdeild í golfinu en aðilar frá Saudi Arabíu eru sagðir standa á bak við hugmyndina. 

Fundað var um málið hjá PGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum á þriðjudag. Þar á bæ hyggjast menn ekki taka málið neinum vettlingatökum og munu kylfingar hafa fengið hótanir um að þeir myndu fá lífstíðarbann á PGA-mótaröðinni ef þeir myndu taka þátt í nýrri ofurdeild. 

Lítið er vitað um áhuga kylfinga á verkefninu en þeir sigursælustu eru milljarðamæringar hvort sem er. 

Norður-Írinn Rory McIlroy hefur í það minnsta lýst því yfir að hann ætli sér ekki að færa sig frá því að spila á PGA-mótaröðinni og Evrópumótaröðinni eins og hingað til. Hann segir sína hvatningu vera að vinna eins mörg risamót og koma sér fyrir í sögubókunum hann getur en hann hefur unnið fjögur hingað til. Þeir kylfingar sem vilji reyna að þéna eins mikið og hægt er á sínum ferli í íþróttinni geti gert það hans vegna. Hugmyndir sem þessar snúist eingöngu um að þéna enn meira en áður að sögn McIlroy og hann segir fólk átta sig fljótt á því eins og í tilfelli Ofurdeildarinnar í knattspyrnunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert