Spieth í miklu stuði

Jordan Spieth er þekktur fyrir að pútta einstaklega vel þegar …
Jordan Spieth er þekktur fyrir að pútta einstaklega vel þegar vel gengur. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth er í miklu stuði á Charles Schwab Challenge-mótinu í PGA-mótaröðinni í golfi í Bandaríkjunum. Er hann efstur fyrir lokahringinn í kvöld. 

Spieth hefur leikið hringina þrjá til þessa á 63, 66 og 66 höggum og er samtals á 15 höggum undir pari vallarins en mótið fer fram í Fort Worth í Texas. Spieth er frá Texas og leikur oft vel í sínu heimaríki. 

Útlit er fyrir að sigurinn á mótinu muni falla annaðhvort Spieth eða Jason Kokrak í skaut en Kokrak er á 14 undir pari. Spænski refurinn Sergio Garcia gæti mögulega blandað sér í baráttuna en hann er þriðji á 10 undir pari. 

Sergio Garcia hefur leikið vel fyrstu þrjá dagana í Texas.
Sergio Garcia hefur leikið vel fyrstu þrjá dagana í Texas. AFP

Spieth lenti í mikilli lægð á golfvellinum og var í byrjun árs á 92. sæti heimlistans. Hann hefur unnið sig upp í 28. sæti með eftirtektarverðum hætti og mun hækka enn frekar eftir þetta mót. Spieth vann á móti í apríl og hefur sjö sinnum verið á meðal tíu efstu í mótum á þessu ári. Þar á meðal hafnaði hann í 3. sæti ásamt fleirum á Masters. 

Spieth var um tíma efstur á heimslistanum og hefur unnið þrjú af risamótunum fjórum á sínum ferli. 

mbl.is