Langefstur en varð að hætta vegna kórónuveirusmits

Jon Rahm á mótinu í Dublin í Ohio í dag, …
Jon Rahm á mótinu í Dublin í Ohio í dag, skömmu áður en hann fékk slæmu fréttirnar. AFP

Spænski kylfingurinn Jon Rahm varð að hætta keppni á Memorial-golfmótinu á bandarísku PGA-mótaröðinni í kvöld, þegar hann var með sex högga forystu fyrir lokahringinn.

Rahm hafði leikið frábærlega á mótinu í Ohio og við honum blöstu um 1,6 milljóna dollara sigurlaun mótsins. 

Hann fór í hefðbundna skimun í gærkvöld og niðurstöðurnar lágu fyrir í dag og voru staðfestar þegar Rahm var enn úti á velli. 

Í tilkynningu frá PGA segir að þetta sé einstaklega óheppileg uppákoma og þetta sé aðeins fjórða smitið sem komi upp á fimmtíu mótum eftir að keppni var hafin á ný eftir hlé vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í Bandaríkjunum. Fram kemur að Rahm sé kominn í einangrun þar sem hann þurfi að dvelja fram til þriðjudagsins 15. júní.

Rahm vann þetta sama mót í fyrra og var á mikilli siglingu en hann hafði leikið á 18 höggum undir pari vallarins þegar fréttirnar bárust. Nú eru Bandaríkjamennirnir Collin Morikawa og Patrick Cantlay efstir og jafnir á 12 höggum undir pari.

mbl.is