Jóhanna áfram í Kilmarnock - Ragnhildur og Hulda úr leik

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir er komin í 32ja manna úrslitin í …
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir er komin í 32ja manna úrslitin í Kilmarnock.

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR er komin í 32ja manna úrslit á Opna breska áhugamannamótinu í golfi í Kilmarnock í Skotlandi en Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR og Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG féllu báðar úr keppni í dag.

Ragnhildur lék frábærlega í gær þegar hún spilaði á 66 höggum og varð efst allra keppenda á mótinu að loknum tveimur hringjum en þá var leikinn hefðbundinn höggleikur.

Efstu 64 keppendurnir komust áfram í 2. umferð mótsins þar sem leikin er holukeppni og 64 manna úrslitin voru leikin í dag.

Ragnhildur mætti Aine Donegan frá Írlandi sem endaði í 64. sæti í höggleiknum og mátti sætta sig við ósigur gegn þeirri írsku.

Hulda Clara, sem endaði í 12. sæti höggleiksins mætti Jóhönnu Leu sem endaði í 53. sæti í 2. umferðinni í dag og þar hafði Jóhanna betur. Hún heldur því áfram keppni á morgun og mætir Hazel Macgarvie frá Skotlandi sem endaði í 21. sæti höggleiksins og sló í dag út Katie Warren frá Englandi.

mbl.is