Jóhanna áfram eftir mikla spennu

Jóhanna Lea fyrir miðju.
Jóhanna Lea fyrir miðju. Ljósmynd/GSÍ

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir er komin áfram í sextán manna úrslit á Opna breska áhuga­manna­mót­inu í golfi eftir sigur á hinni skosku Hazel Macgarvie í 32-manna úrslitunum í dag.

Leikið er í Kilm­arnock í Skotlandi. Hefðbundinn höggleikur var leikinn á fyrstu tveimur hringjunum áður en holukeppni tók við.

Úrslitin réðust á 17. holunni í dag en þá náði Jóhanna tveggja holu forskoti, sem þýddi að Macgarvie gat ekki náð henni þar sem aðeins ein hola var eftir. Alls vann Jóhanna fimm holur gegn þremur hjá þeirri skosku.

Íslenski kylfingurinn mætir Emily Toy frá Englandi í sextán manna úrslitunum í dag.

mbl.is