Varla farin að átta okkur á þessu ennþá

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir keppir til úrslita í Kilmarnock á morgun.
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir keppir til úrslita í Kilmarnock á morgun. Ljósmynd/EGA

Lúðvík Bergvinsson faðir Jóhönnu Leu Lúðvíksdóttur er kylfuberi fyrir hana á Opna breska áhugamannamótinu í golfi í Kilmarnock og hann segir að þau feðginin séu varla farin að átta sig ennþá á árangri hennar.

Jóhanna er komin í úrslitaleik mótsins og mætir þar Louise Duncan frá Skotlandi. Sigurvegarinn á mótinu fær keppnisrétt á fjórum risamótum í atvinnugolfinu og því er gríðarlega mikið í húfi á morgun.

„Við erum að sjálfsögðu spennt fyrir morgundeginum og það verður gaman að sjá hvernig þetta fer. Hún mætir mjög öflugum andstæðingi og það er mikið í húfi þó við séum varla farin að gera okkur grein fyrir því ennþá.

En það sem er að skila sér hjá Jóhönnu á þessu móti er mikil vinna með frábæru fólki og þjálfurum í GR og öllum sem þar starfa. Hinar íslensku stúlkurnar sem tóku þátt í mótinu hafa líka staðið vel við bakið á henni og hvatt hana,“ sagði Lúðvík við mbl.is eftir sigurinn á Shannon McWilliam í undanúrslitunum í dag en nánar er rætt við hann í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Árangur hennar er sá besti sem íslenskur kylfingur hefur náð á Opna breska áhugamannamótinu, bæði í kvenna- og karlaflokki.

mbl.is