Einn Íslendingur áfram en fimm úr leik

Hlynur Bergsson, til vinstri, er kominn í 32-manna úrslit.
Hlynur Bergsson, til vinstri, er kominn í 32-manna úrslit. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlynur Bergsson verður fulltrúi Íslands í 32-manna úrslitum á Opna breska áhugamannamótinu í golfi sem fram fer í Inverness í Skotlandi.

Hlynur fór áfram með sigri á Matt Roberts frá Wales í 64-manna úrslitum í dag. Hlynur var í 28. sæti eftir tvo hringi af höggleik. Það verður nóg að gera hjá Hlyni á þjóðhátíðardaginn á morgun þegar bæði 32-manna og 16-manna úrslitin verða leikin. 

Hinir fimm Íslendingarnir sem kepptu á mótinu eru úr leik. Aron Snær Júlíusson mátti þola tap gegn Englendingnum Laird Shepherd. Aron var í 11.- 17. sæti á parinu eftir höggleikinn, líkt og Dagbjartur Sigurbrandsson sem féll úr leik gegn Englendingnum Josh Hill.

Írinn John Cleary hafði betur gegn Sigurði Arnari Garðarssyni. Sigurður var í 35. sæti eftir höggleikinn á þremur höggum yfir pari. Kristófer Karl Karlsson tapaði fyrir Íranum Robert Moran. Kristófer varð í 47. sæti í höggleiknum á fjórum höggum yfir pari.

Hákon Örn Magnússon var eini Íslendingurinn sem komst ekki áfram í 64-manna úrslitin en hann lék tvo hringi í höggleik á átta höggum yfir pari.

Sigurvegari mótsins vinnur sér inn þátttökurétt á þremur risamótum; Opna breska, Opna bandaríska og Masters-mótinu.

Jó­hanna Lea Lúðvíks­dótt­ir fór alla leið í úrslitaleikinn á samskonar móti í kvennaflokki um síðustu helgi.

mbl.is