Óvæntur forystusauður á risamóti

Russell Henley er í efsta sæti á Opna bandaríska.
Russell Henley er í efsta sæti á Opna bandaríska. AFP

Bandaríkjamaðurinn Russell Henley er óvænt með forystuna á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi en hann lék fyrsta hringinn í dag á 67 höggum, fjórum höggum undir pari.

Henley fékk sex fugla og tvo skolla á holunum átján og er með eins höggs forystu á Ítalann Francesco Molinari og Spánverjann Rafa Bello.

Henley hefur aldrei sigrað á risamóti en besti árangurinn hans á slíku kom árið 2017 er hann varð í ellefta sæti á Masters-mótinu. Besti árangur hans á Opna bandaríska var árið þegar hann hafnaði í 16. sæti.

Ekki hafa allir lokið leik á fyrsta hring og gæti staðan því breyst áður en kylfingarnir hefja leik á öðrum hring á morgun.

mbl.is