Fékk sand í augað og dró sig úr keppni

Viktor Hovland varð fyrir óheppilegum meiðslum í gær.
Viktor Hovland varð fyrir óheppilegum meiðslum í gær. AFP

Norski kylfingurinn Viktor Hovland varð fyrir óheppilegum meiðslum í gær er hann lék á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi á Torrey Pines-vellinum í San Diego í Kaliforníu. Í upphitun fyrir annan hring fékk hann sand í augað.

Hovland gat þar með ekki haldið leik áfram og dró sig úr keppni á öðrum hring.

„Ég tók högg á sandi þegar ég var að hita upp í dag og fékk smá sand í vinstra augað. Venjulega þegar maður lendir í þeim aðstæðum reynir maður að laga ástandið með því að blikka nokkrum sinnum.

Hins vegar ákvað hinn þrjóski San Diego-sandur að halda sig í auganu, eins og hvimleið kviðfita sem fer hvergi þrátt fyrir endalaus hlaup,“ skrifaði Hovland á Instagram-aðgang sinn.

„Þegar styttist í að ég þyrfti að hefja leik var planið að spila skikkanlega á fyrstu holunum með það í huga að eygja möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn og vonast eftir því að sjónin kæmi aftur.

Eftir að hafa fyrir eitthvert kraftaverk komist í gegnum fyrstu fjórar holurnar fannst mér sem sjónin væri að lagast. Ég bar rétt nægilega von í brjósti um að geta haldið áfram. Nokkrir skollar til viðbótar voru óumflýjanlegir og á 18. holu (9. holu minni) fór sjónin að versna. Við vorum aftur komnir á byrjunarreit. Vonin sem var til staðar hafði farið eitthvað annað,“ bætti hann við.

mbl.is