Sá elsti til að leiða eftir annan hring

Richard Bland leiðir ásamt Russell Henley að loknum öðrum hring …
Richard Bland leiðir ásamt Russell Henley að loknum öðrum hring á Opna bandaríska meistaramótinu. AFP

Enski kylfingurinn Richard Bland leiðir á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi á Torrey Pines-vellinum í San Diego í Kaliforníu eftir annan hring ásamt Bandaríkjamanninum Russell Henley, sem leiddi afar óvænt eftir fyrsta hring og tókst að halda í forystuna.

Bland, sem er 48 ára, er þar með elsti kylfingurinn í sögu mótsins til að leiða eftir 36 holur.

Henley hefði getað leitt einsamall eftir annan hringinn í gær en klikkaði á stuttu pútti á síðustu holunni.

Þar með eru Bland og Henley saman í forystu eftir 36 holur, báðir búnir að leika á fimm höggum undir pari.

Þriðji hringur Opna bandaríska meistaramótsins verður leikinn í dag.

mbl.is