Vann risamótið í fyrstu tilraun

Collin Morikawa stóð uppi sem sigurvegari.
Collin Morikawa stóð uppi sem sigurvegari. AFP

Banda­ríkjamaður­inn Coll­in Morikawa heldur áfram að fagna ótrúlegum árangri en hann varð í dag sigurvegari á The Open-risamótinu í golfi á Royal St. George's-golfvellinum í Kent á Englandi.

Suður-Afríkumaðurinn Lou­is Oost­huizen var í forystunni fyrstu þrjá dagana og hafði eins höggs forystu eftir þriðja hringinn í gær. Morikawa, sem er aðeins 24 ára, náði hins vegar að snúa taflinu við í dag og stendur því uppi sem sigurvegari. Hann lék lokahringinn á 66 höggum, fjórum undir pari, og lauk keppni á alls 15 höggum undir pari. Hringina fjóra lék hann á 67, 64, 68 og svo 66 höggum.

Bandaríkjamaðurinn Justin Spieth var annar á 13 höggum undir pari en Oosthuizen endaði jafn Spánverjanum Jon Rahm í 3.-4. sæti, báðir léku á 11 höggum undir pari.

Morikawa hefur átt ótrúlegt ár. Hann vann sitt fyrsta risamót, PGA-meistaramótið, í ágúst á síðasta ári. Þá var þetta í fyrsta sinn sem hann tekur þátt á The Open. Hann er fyrsti kylfingurinn í sögunni til að vinna tvö risamót í fyrstu tilraun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert