Sænskur sigur á Carnoustie

Anna Nordqvist fagnar sigri.
Anna Nordqvist fagnar sigri. AFP

Anna Nordqvist frá Svíþjóð sigraði á Opna breska meistaramótinu í golfi sem lauk á Carnoustie í Skotlandi í gær. 

Nordqvist sem er 34 ára gömul sigraði þar með í þriðja skipti á einu risamótanna í íþróttinni. Hefur hún einnig unnið PGA-meistaramótið og Evian mótið en risamótin eru fimm hjá konunum í golfinu. Hafði hún talsvert upp úr krafsinu eða liðlega 112 milljónir íslenskra króna. 

Fulltrúar frá Norðurlöndunum voru í sviðsljósinu þegar mótið náði hámarki. Nordqvist og Nanna Koerstz Madsen frá Danmörku voru jafnar á 12 höggum undir pari samtals þegar þeir fóru á teig á síðustu brautinni. Þar fékk Nordqvist par en sú danska fékk tvöfaldan skolla. Við það féll hún niður í fimmta sæti enda hart barist á risamótunum. 

Tveir íslenskir kylfingar hafa leikið á mótinu í kvennaflokki. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir árið 2017 og Valdís Þóra Jónsdóttir ári síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert