Tony Finau braut mikinn ís

Tony Finau með sigurlaunin í kvöld.
Tony Finau með sigurlaunin í kvöld. AFP

Tony Finau sigraði á fyrsta mótinu af þremur í FedEx úrslitakeppninni á PGA-mótaröðinni í golfi sem lauk í New Jersey í kvöld. 

The Northern Trust er fyrsta mótið í úrslitakeppninni en henni lýkur með lokamóti mótaraðarinnar Tour Championship. 

Tony Finau lék á samtals 20 höggum undir pari eins og Cameron Smith en hafði betur í bráðabána. Finau lék glimrandi vel í mótinu en hann var á 67, 64, 68 og 65 höggum. 

Spánverjinn John Rahm varð í þriðja sæti og er til alls líklegur á næstu mótum. 

Tony Finau hefur síðustu árin verið í hópi bestu kylfinga heims og er í 22. sæti heimslitans. Hann hafði þó aðeins einu sinni sigrað á móti á PGA-mótaröðinni en það var árið 2016. Hann hefur oft verið á meðal efstu manna en hefur átt erfitt með að klára dæmið. 

Hæfni hans hefur hins vegar ekki farið framhjá áhugamönnum um íþróttina því á árunum 2018 - 2020 náði hann að vera á meðal fimm efstu í öllum fjórum risamótunum en slíkum árangri ná einungis toppmenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert