Haraldur hafnaði í öðru sæti í Hollandi

Haraldur Franklín Magnús lék frábærlega og lenti í þriðja sæti …
Haraldur Franklín Magnús lék frábærlega og lenti í þriðja sæti í Hollandi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, hafnaði í öðru sæti í B-NL Challenge-bikarnum í Spijk í Hollandi, sem er hluti af Áskorendamótaröðinni, eftir að hafa keppt við þrjá aðra kylfinga í bráðabana í dag.

Haraldur lék best þeirra fjögurra kylfinga sem enduðu jafnir í efsta sæti á lokahringnum fyrr í dag þegar hann lék á aðeins 65 höggum, sex höggum undir pari og alls 273 höggum og 11 höggum undir pari á mótinu.

Þrír aðrir kylfingar léku einnig á 11 höggum undir pari á mótinu og því þurfti að grípa til bráðabana til þess að knýja fram sigur.

Norður-Írinn Michael Hoey féll úr leik strax á fyrstu holu þegar hann lék á fimm höggum. Á meðan léku Haraldur, Spánverjinn Alfredo García-Hereida og Daninn Marcus Helligkilde á fjórum höggum, einu höggi undir pari.

Allir þrír léku þeir á fimm höggum, á pari, á annarri holu. Á þriðju holu lék Haraldur hins vegar á sex höggum, einu höggi yfir pari, á meðan García-Hereida og Helligkilde léku á pari, fimm höggum. García-Hereida bar að lokum sigur úr býtum. 

Haraldur hafnar þar með í öðru sæti á mótinu, sem er frábær árangur. En þeir þrír sem töpuðu í bráðabana deila með sér öðru sætinu. 

Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð að vinna mót í Áskorendamótaröðinni en það gerði hann í Frakklandi haustið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert