Haraldur leikur til sigurs í bráðabana – magnaður lokahringur Guðmundar

Haraldur Franklín Magnús var aðeins einu höggi frá efsta sætinu …
Haraldur Franklín Magnús var aðeins einu höggi frá efsta sætinu á mótinu í Hollandi. Ljósmynd/seth@golf.is

Atvinnukylfingarnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, báðir úr GR, stóðu sig frábærlega í B-NL Challenge-bikarnum í Spijk í Hollandi, sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Haraldur hefur raunar ekki lokið þátttöku enn þar sem hann mun taka þátt í bráðabana um sigur á mótinu.

Haraldur átti frábæran lokahring og lék á aðeins 65 höggum, sex höggum undir pari og alls 11 höggum undir pari á mótinu. Hann endaði þar með í efsta sæti ásamt þremur öðrum kylfingum sem léku einnig á 11 höggum undir pari.

Þar sem kylfingarnir fjórir eru allir jafnir að fjórum hringjum loknum þarf að grípa til bráðabana til þess að knýja fram sigurvegara.

Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð að vinna mót í Áskorendamótaröðinni, það gerði hann í Frakklandi haustið 2017.

Guðmundur átti sömuleiðis magnaðan lokahring á mótinu í dag þegar hann lék á aðeins 63 höggum, átta höggum undir pari og alls á átta höggum undir pari á mótinu í heildina.

Guðmundur endaði þar með jafn í 8. sæti mótsins ásamt tveimur öðrum kylfingum.

Guðmundi Ágústi Kristjánssyni gekk frábærlega á lokahringnum í dag.
Guðmundi Ágústi Kristjánssyni gekk frábærlega á lokahringnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert