Einvalalið í baklandi bandaríska liðsins

Fred Couples
Fred Couples AFP

Steve Stricker, fyrirliði Ryderliðs Bandaríkjanna, hefur fengið tvo geysilega vinsæla kylfinga til að vera sér til aðstoðar í keppninni.

Þar er um að ræða Phil Mickelson og Fred Couples. Fyrir í teymi liðsstjórans eru Jim Furyk og Zach Johnson og því ljóst að Bandaríkjamenn leggja mikla áherslu á að vinna bikarinn. Allir fjórir aðstoðarmenn fyrirliðans hafa unnið risamót á ferlinum. Bandaríska liðinu hefur ekki gengið sérstaklega vel í Ryder-bikarnum á þessari öld en liðið vann þó árið 2016.

Keppnin verður í Bandaríkjunum síðar í mánuðinum en keppninni var frestað í fyrra vegna heimsfaraldursins. Að þessu sinni verður leikið í Whistling Straits í Wisconsin.

Mickelson er 51 árs og í maí varð hann elsti kylfingurinn frá upphafi til að vinna risamót þegar hann sigraði á PGA-meistaramótinu. Ekki er því útilokað að Mickelson komist í liðið sjálfur. Enginn Bandaríkjamaður hefur spilað fleiri leiki í Ryder-bikarnum eða 47.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert