Heiður, dramatík og ættjarðarást

Francesco Molinari fagnar með Tommy Fleetwood eftir sigur Evrópuliðsins í …
Francesco Molinari fagnar með Tommy Fleetwood eftir sigur Evrópuliðsins í Ryder-bikarnum árið 2018. AFP

Ryder-bikarinn í golfi hefst á morgun og stendur yfir alla helgina. Vanalega hefur mótið verið haldið á tveggja ára fresti síðan það var fyrst haldið árið 1927, en í ár verða þrjú ár liðin síðan Evrópa hélt bikarnum sín megin Atlantshafsins á heimavelli.

Mótinu var frestað um ár í fyrra vegna faraldursins og er það í annað skiptið á síðustu tutugu árum síðan mótinu er frestað um ár. Árið 2001 átti mótið að fara fram aðeins örfáum dögum eftir árásina á tvíburaturnana, 11. september.

Ryder-bikarinn hefur alltaf einkennst af mikilli leikgleði og skemmtun fyrir áhorfendur og því þótti Bandaríkjamönnum sérstaklega ekki viðeigandi að halda mótið í skugga slíkra hörmunga.

Mótið verður því haldið á tveggja ára fresti héðan í frá, alltaf á oddatöluári, eftir um 20 ára mótshald á ártölum með slétta tölu. Þess ber að geta að mótið fór ekki fram á styrjaldarárunum 1939-1945.

Barátta, einn á einn

Ryder-bikarinn er sérstakt golfmót fyrir margar sakir. Einna helst þó vegna þess að leikin er svokölluð holukeppni. Þar keppast kylfingar um að fara hverja holu á sem fæstum höggum og vinna þannig eina holu í einu. Ólíkt því er höggleikur, sem er hefðbundnara form íþróttarinnar, þar sem kylfingar reyna að fara á sem lægstu skori á heilum
hring.

Holukeppni býður gjarnan upp á meiri dramatík og sviptingar enda spila kylfingar, eða lið kylfinga, hvorir gegn öðrum – eins og í skylmingum eða glímu.

Bandaríkjamenn fagna sigri árið 2016.
Bandaríkjamenn fagna sigri árið 2016. JAMIE SQUIRE

Eins og fyrr segir var mótið haldið fyrst árið 1927 í Massachusetts. Frá þessu fyrsta móti og til ársins 1979 var Ryder-bikarinn keppni milli bestu kylfinga Bandaríkjanna annars vegar og Bretlands og Írlands hins vegar. Árið 1979 var þó ákveðið að kylfingar úr allri Evrópu myndu etja kappi við kylfinga frá Bandaríkjunum og svo hefur það haldist síðan. Bandaríkin einokuðu enda Ryder-bikarinn fyrir árið 1979, 19 sigrar alls gegn þremur sigrum Bretanna.

Lukka Bandaríkjamanna fór þó hverfandi þegar Evrópa öll skarst í leikinn ‘79. Var það einna helst fyrir tilstilli Seve Ballesteros, Spánverjans litríka, að gengi Evrópumanna
fór að vænkast. Frá árinu 1979 og til dagsins í dag hefur Evrópa 12 sinnum farið með sigurorð af Bandaríkjunum, sem sigrað hafa átta sinnum.

Seve heitinn Ballesteros er án efa einn efirminnilegasti karakter íþróttasögunnar. …
Seve heitinn Ballesteros er án efa einn efirminnilegasti karakter íþróttasögunnar. Ótrúlegur endurkomusigur Evrópumanna í Ryder-bikarnum árið 2012 var tileinkaður honum. Hann lést fyrr það sama ár. Ljósmynd/PGA

Keppt um heiðurinn

Ólíkt því sem gerist á stærstu mótaröðunum í golfi, PGA-mótaröðinni bandarísku og Evrópumótaröðinni, er ekki leikið um svimandi peningaverðlaun í Ryder-bikarnum – þar er aðeins keppt um heiðurinn.

Þrátt fyrir það eru kylfingar sjaldnar blóðheitari en þegar þeir keppa í Ryder-bikarnum og eru
dæmi um að kylfingar spili illa allt tímabilið, en blómstri síðan í rafmögnuðu andrúmslofti Ryders-ins.

Gott dæmi um það er Ian Poulter, Englendingur, sem af mörgum er talinn einn ofmetnasti kylfingur íþróttarinnar. Poulter hefur aldrei unnið eitt fjögurra risamótanna í golfi og hefur ekki oft unnið mót á PGA-mótaröðinni, mótaröð þeirra bestu.

Ian Poulter elskar fátt meira en Ryder-bikarinn.
Ian Poulter elskar fátt meira en Ryder-bikarinn. Ljósmynd/Sky Sports

Þrátt fyrir það vill enginn etja kappi við Poulter í Ryder-bikarnum, hvort sem hann heitir Tiger Woods, Jordan Spieth, Bryson DeChambeau eða Brooks Koepka. Raunar kemst Poulter yfirleitt ekki nægilega ofarlega á stigalista hvers tímabils, sem veitir kylfingum keppnisrétt á mótinu, og er hann iðulega annar tveggja kylfinga, sem þjálfari Evrópuliðsins fær að velja í sitt 12 kylfinga lið.

Bandaríkjamenn eru oft sterkari aðilinn þegar að mótinu kemur. Í ár líkt og fyrri ár prýða stærstu stjörnur golfíþróttarinnar, kylfingar sem spila vel mót eftir mót, bandaríska liðið. Í því evrópska er frekar að finna eldri kylfinga með meiri reynslu og þykkari skráp, menn sem spila af ástríðu. 

Spennandi ár, sem fyrr

Það er ekki þar með sagt að Bandaríkjamenn séu lausir við alla ástríðu fyrir golfíþróttinni eða Ryder-bikarnum. Eftirminnilegt er þegar Bandaríkjamaðurinn Justin Leonard setti niður 40 feta langt pútt og tryggði Bandaríkjamönnum sigur árið 1999 eftir lygilega endurkomu þeirra á síðasta degi mótsins.

Leonard, liðsfélagar hans, eiginkonur þeirra allra og sjónvarpsfréttamenn NBC þustu þá inn á flötina og tröðkuðu á púttlínu Spánverjans, José María Olzábal.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort ástríðufullir Evrópumenn eða stórstjörnur úr liði Bandaríkjamanna sigri í ár. Evrópu hefur gengið mun betur undanfarin ár og er handhafi bikarsins. Það þýðir að jafntefli dugir þeim að stigum til þess að halda bikarnum á evrópskri grundu.

Justin Leonard fagnar eins og óður maður á 17. flöt …
Justin Leonard fagnar eins og óður maður á 17. flöt árið 1999. Þarna hafði hann tryggt Bandaríkjamönnum sigur á ótrúlegan hátt eftir lygilegan árangur á lokadegi mótsins. Ein eftirminnilegasta stund golfsögunnar. Ljósmynd/Sky Sports
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert