Bandaríkin mun sterkari á fyrsta degi Ryder

Patrick Cantlay og Justin Thomas (á mynd) enduðu fyrsta dag …
Patrick Cantlay og Justin Thomas (á mynd) enduðu fyrsta dag Ryder-bikarsins á því að skilja jafnir við Viktor Hovland og Tommy Fleetwood. AFP

Ryder-bikarinn í golfi hófst í morgun með keppni í fjórmenningi þar sem tveir úr hvoru liði, Evrópu og Bandaríkjanna, öttu kappi. Lið Evrópu byrjaði betur en heimamenn í Bandaríkjunum létu það ekki á sig fá og sneru blaðinu við svo um munaði.

Að loknum fyrsta keppnisdegi eru Bandaríkin því með sannfærandi forystu. Leikið er á Whistling Streets-golfvellinum í Wisconsin-ríki.

Dagurinn hófst á því að Spánverjarnir Jon Rahm og Sergio García unnu Bandaríkjamennina Justin Thomas og Jordan Spieth 3/1. Dustin Johnson og Collin Morikawa svöruðu fyrir Bandaríkin með því að vinna Viktor Hovland og Paul Casey 3/2.

Daniel Berger og Brooks Koepka fylgdu því eftir með því að vinna Matt Fitzpatrick og Lee Westwood 2/1 og þeir Xander Schauffele og Patrick Cantlay klykktu út með því að vinna Rory McIlroy og Ian Poulter  5/3. Staðan að loknum fjórmenningi var því 3:1.

Eftir hádegi í dag var einnig keppt í fjórbolta og voru Bandaríkin sömuleiðis með tögl og hagldir þar. Tony Finau og Harris English unnu Rory McIlroy og Shane Lowry 5/3 og Dustin Johnson og Xander Schauffele unnu Paul Casey og Bernd Wiesberger 2/1.

Bandaríkjamennirnir Bryson DeChambeau og Scottie Scheffler og Jon Rahm og Tyrrell Hatton skildu svo jafnir og hlutu þar með hálfan vinning hvort um sig.

Þá skildu Bandaríkjamennirnir Justin Thomas og Patrick Cantlay og Viktor Hovland og Tommy Fleetwood sömuleiðis jafnir og fengu því einnig hálfan vinning hvort lið um sig.

Staðan að loknum fyrsta keppnisdegi er því 6:2, Bandaríkjunum í vil.

mbl.is