Thomas og Spieth mæta Rahm og Garcia

Tyrrell Hatton, Rory McIlroy og Jon Rahm léttir á æfingahringnum …
Tyrrell Hatton, Rory McIlroy og Jon Rahm léttir á æfingahringnum í gær en Rahm er efsti kylfingur heimslistans. AFP

Liðsstjórar liðanna í Ryder-bikarnum í golfi hafa tilkynnti hverjir munu leika í fyrstu leikjunum keppninnar í ár sem hefst í Wisconsin í dag. 

Spánverjarnir Jon Rahm og Sergio Garcia verður teflt fram saman. Rahm er efsti kylfingur heimslistans og Garcia er sá kylfingur sem náð hefur í flesta vinninga í keppninni af þeim sem nú eru með. Þeir mæta Justin Thomas og Jordan Spieth en þessi leikur verður sá fyrsti í keppninni í ár sem byrjar í há deginu í dag að íslenskum tíma. 

Fjórir leikir eru á dagskrá í fjórmenningi fyrir hádegi að staðartíma en þar slá kylfingar annað hvert högg á hverri holu. Aðrir fjórir leikir fara fram eftir hádegi að staðartíma en þá er keppt í betri bolta. Þar af leiðandi eru átta í hvoru liði sem spila fjóra leiki og þá þurfa fjórir úr hvoru liði að hvíla. 

Norðmaður er nú í Ryderliði Evrópu en Viktor Hovland fær verðugt verkefni. Hann og Paul Casey mæta Dustin Johnson og Collin Moriwaka. 

Létt var yfir Brooks Koepka, Bryson DeChambeau og Jordan Spieth …
Létt var yfir Brooks Koepka, Bryson DeChambeau og Jordan Spieth á setningunni. AFP

Brooks Koepka er á meðal þeirra sem verða sendir út í fjórmenningnum og spilar með nýliðanum Daniel Berger gegn reynsluboltanum Lee Westwood og nýliðanum Matt Fitzpatrick. Bandarískir fjölmiðlar hafa mikið velt sér upp úr því hvort rígurinn á mili Koepka og Bryson DeChambeau sem kom upp á yfirborðið á árinu hafi áhrif á andann í bandaríska liðinu. 

Rory McIlroy og Ian Poulter leika saman gegn Xander Schauffele og Patrick Cantlay en McIlroy og Poulter hafa áður verið settir saman með góðum árangri. 

mbl.is