Í baráttu um að komast á lokamótið

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Franklín Magnús, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, er í mikilli baráttu um að komast á lokamót Áskorendamótaraðar Evrópu í golfi þegar nokkur mót eru eftir á keppnistímabilinu.

Haraldur er í 49. sæti á stigalistanum á þessu ári en þeir sem verða í 45 efstu sætunum komast á lokamótið. 

Lokamótið mun telja drjúgt á stigalistanum og að keppnistímabilinu loknu munu tuttugu efstu kylfingarnir öðlast keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili, þeirri sterkustu í álfunni. 

Næst verður keppt í Frakklandi og að því loknu verða tvö mót á Spáni. Verða það síðustu mótin fyrir lokamótið sem fer fram á Mallorka. 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í 82. sæti listans. Hann þarf að vera í toppbaráttunni í einhverju þeirra móta sem eftir eru til að eiga möguleika á að komast á lokamótið. 

mbl.is