McIlroy sigraði á 25 undir pari

Rory McIlroy var yfirvegaður þegar leið á.
Rory McIlroy var yfirvegaður þegar leið á. AFP

Bið Norður-Írans Rorys McIlroy eftir sigri á golfvellinum lauk um miðnætti að íslenskum tíma þegar hann sigraði með glæsibrag á CJ Cup mótinu á PGA-mótaröðinni. 

McIlroy spilaði 72 holur á 25 höggum undir pari en mótið fór fram í Las Vegas. Nýtt keppnistímabil er nýhafið á PGA-mótaröðinni og árangur kylfinganna telur þegar stigalistinn verður gerður upp haustið 2022. 

Skorið í mótinu var afskaplega gott og aðstæður góðar í eyðimörkinni. McIlroy sigraði síðast í maí og biðin var því ekki löng miðað við marga aðra. En þar sem McIlroy hafði verið efstur á heimslistanum þegar heimsfaraldurinn skall á fyrir einu og hálfu ári þá hefur árangur hans á þessu ári ekki þótt góður á hans mælikvarða. 

Sigurinn í Las Vegar markar viss tímamót fyrir McIlroy því hann er nú kominn í hóp þeirra sem unnið hafa tuttugu mót á PGA-mótaröðinni. Því fylgir keppnisréttur á mótaröðinni til lífstíðar eins og það er kallað. 

Collin Morikawa sem sigraði á The Open Championship í sumar sýndi enn og aftur hvers hann er megnugur og varð annar á 24 undir pari. Lokahringinn lék hann á 62 höggum, sama skori og McIlroy lék þriðja hringinn á. 

Rickie Fowler skartaði kunnuglegum litum í gær.
Rickie Fowler skartaði kunnuglegum litum í gær. AFP

Aðdáendur Rickie Fowler biðu spenntir eftir lokahringnum því Fowler var með forystu fyrir lokadaginn. Var þá tveimur höggum á undan McIlroy. Hann lék á einu höggi undir pari í gær og samtals á 22 höggum undir pari. Fowler hefur hrapað niður heimslistann á síðustu tveimur árum eða svo. Var hann í 128 sæti listans fyrir mótið. Á þessu ári missti hann bæði af Masters og FedEx úrslitakeppninni. Og Ryder-bikarnum fyrir vikið. 

Fowler fer alla vega vel af stað á nýju tímabili og veitir ekki af því hann þarf að berjast fyrir því á tímabilinu að halda keppnisréttinum á PGA-mótaröðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert