Ísland í sautjánda sæti eftir fyrsta daginn

Ragnhildur Kristinsdóttir er efst Íslendinganna í einstaklingskeppninni í Texas.
Ragnhildur Kristinsdóttir er efst Íslendinganna í einstaklingskeppninni í Texas. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lið Íslands er í sautjánda sæti eftir fyrsta keppnisdaginn á Spirit International áhugamannamótinu í golfi sem hófst í Texas í gær og lauk í nótt að íslenskum tíma.

Hulda Clara Gestsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir, Hlynur Bergsson og Dagbjartur Sigurbrandsson skipa íslenska liðið en þau eru öll í námi í bandarískum háskólum og keppa þar með sínum skólaliðum. Liðsstjóri er Tómas Aðalsteinsson sem er þjálfari hjá bandarísku háskólaliði.

Tuttugu þjóðir taka þátt í mótinu og íslenska liðið lék í gær á samtals 11 höggum yfir pari og er rétt á eftir Írlandi, Ítalíu og Mexíkó, en talsvert fyrir ofan neðstu liðin sem eru Finnland, Spánn og Taívan. Kanada og Bandaríkin eru langefst á 8 og 6 höggum undir pari og Frakkar eru þriðju á  tveimur undir pari.

Hlynur og Ragnhildur léku bæði á 75 höggum, þremur yfir pari, Hulda lék á 77 höggum og Dagbjartur á 78 höggum.

Í kvennaflokki eru þær Ragnhildur og Hulda í 11. sæti og í karlaflokki eru Hlynur og Dagbjartur í 13. sæti. Í einstaklingskeppninni er Ragnhildur í 17. sæti og Hulda í 23. sæti hjá konunum en hjá körlunum er Hlynur í 20. sæti og Dagbjartur í 31. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert