Brotin kylfa stöðvaði ekki Norðmanninn

Viktor Hovland einbeittur á mótinu í Mexíkó.
Viktor Hovland einbeittur á mótinu í Mexíkó. AFP

Norðmaðurinn Viktor Hovland tryggði sér síðustu nótt sinn þriðja sigur á bandarísku PGA-mótaröðinni í golfi en þá var keppt í mexíkósku borginni Playa del Carmen.

Hovland, sem er aðeins 24 ára gamall, vann þetta mót annað árið í röð og setti nýtt mótsmet með því að leika samtals á 23 höggum undir pari vallarins. 

Hann varð fjórum höggum á undan Mexíkóanum Carlos Ortiz og fimm höggum á undan Bandaríkjamanninum Justin Thomas.

Norðmaðurinn byrjaði ekki vel í Mexíkó því hann braut sinn aðal dræver áður en kom að upphafshöggi mótsins og þurfti að fá annan lánaðan hjá Bandaríkjamanninum James Hahn.

Það hafði ekki slæm áhrif því auk mótsmetsins lék Hovland á 62 höggum á laugardaginn sem er hans besti hringur á PGA-mótaröðinni.

Árangur Hovlands undanfarna mánuði og misseri er magnaður en auk sigranna í Mexíkó vann hann Players meistaramótið í Flórída í mars og BMW International-mótið í München á Evrópumótaröðinni í júní. Hann hefur sjö sinnum á þessu ári verið einn af fimm efstu á mótum á PGA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert