Slæmur dagur hjá Guðrúnu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili náði sér ekki á strik á fyrsta keppnisdegi lokamótsins á Evrópumótaröðinni í golfi. 

Guðrún Brá lék í dag á 79 höggum og var á sjö höggum yfir pari vallarins. Hún hóf leik á 10. teig og fékk skramba á 15. holu. Guðrún komst aldrei í gang að ráði og fékk einn fugl á hringnum og tíu pör. Skollarnir voru hins vegar sex. 

Mótið fer fram á Costa Del Sol en aðeins 72 kylfingar fengu keppnisrétt á lokamótinu og er þar farið eftir stöðu kylfinganna á stigalistanum. Frammistaða þeirra á árinu skilar þeim stigum á stigalistanum. Með frammistöðu sinni á árinu hefur Guðrún jafnframt tryggt sér áframhaldandi keppnisrétt á mótaröðinni á næsta ári. 

Guðrún er í 68. sæti sem stendur en gæti hækkað nokkuð ef hún finnur taktinn. Einungis tuttugu kylfingar voru á pari eða betra skori og því útlit fyrir að völlurinn hafi verið nokkuð erfiður viðureignar. 

mbl.is