Gefur þátttaka Tigers einhverja vísbendingu?

Létt var yfir Tiger Woods í mótinu sem fram fór …
Létt var yfir Tiger Woods í mótinu sem fram fór á Flórída. AFP

Íþróttablaðamenn og álitsgjafar í Bandaríkjunum hafa velt mikið fyrir sér hvað skuli lesa í þá staðreynd að Tiger Woods tók þátt í góðgerðarmóti með syni sínum á dögunum. 

Eftir að hafa nærri misst hægri fótinn í bílslysi í byrjun árs kom mjög á óvart þegar Tiger tilkynnti að hann yrði með á mótinu. Ekki síst vegna þess að skömmu áður tilkynnti hann að hann gæti aldrei aftur keppt á fullu á PGA-mótaröðinni. Hann myndi reyna að keppa af og til ef hann næði fullri heilsu. 

Justin Thomas lék með föður sínum Mike Thomas í góðgerðamótinu en Mike er reyndur golfkennari. Hann þjálfar Justin enn þann dag í dag og veit því hvað hann syngur þegar golfíþróttin er annars vegar. Þeir feðgar þekkja Tiger vel. 

Oft hafa augu manna beinst að töktum og tækni Tigers …
Oft hafa augu manna beinst að töktum og tækni Tigers Woods en í þetta skiptið var það af öðrum ástæðum. Hér má sjá Tiger í miðri sveiflu í mótinu. AFP

Mike tjáði fjölmiðlum að hann væri undrandi á því hversu góður slátturinn hjá Tiger væri ef haft sé í huga hversu illa hann slasaðist. „Það er fáránlegt hversu vel hann slær og hversu langt miðað við það sem hann hefur gengið í gegnum. Hann býr enn yfir talsverðum sveifluhraða. Högglengdin er ágæt og hann slær mörg mjög góð högg. Þetta kom mér á óvart,“ sagði Thomas. Á honum má skilja að Tiger sé kominn lengra í endurhæfingunni en yfirlýsing Tigers gaf til kynna. 

„Við sem þekkjum hann vitum að Tiger mun aldrei viðurkenna að hann sé að nálgast þann stað sem hann vill vera á.“

Segir Tiger hafa breyst með árunum

Tiger verður 46 ára í lok árs og hefur breyst töluvert frá því hann var ungur og kappsamur kylfingur sem var efstur á heimslistanum. Menn breytast með árunum eins og gengur. Gamli Tiger hefði aldrei látið sjá sig á góðgerðarmótinu nema hann gæti leikið gott golf. 

Írinn Padraig Harrington keppti á mótinu og benti á í samtali við ESPN að áherslur og forgangsröðun hefðu breyst hjá Tiger Woods með árunum. Harrington hefur verið lengi að og var kominn á stórmótin þegar Tiger var upp á sitt besta. Nokkrum árum síðar vann Harrington sjálfur fjórum sinnum á risamótunum. 

„Þetta sýnir hvernig Tiger hefur breyst. Við skulum bara tala um þetta eins og þetta var. Það var frábært að keppa á móti Tiger þegar hann var upp á sitt besta. En hann var alger atvinnumaður og hann hleypti engum að sér. Það þekkti hann enginn að ráði á mótaröðinni. En núna er hann orðinn faðir og hann hefur gerbreyst. Hann er allt önnur persóna. Hann hefði aldrei farið að spila golf á þessum tímapunkti nema vegna þess að hann langar til að upplifa þetta með syni sínum. Þegar maður verður eldri áttar maður sig betur á því sem skiptir máli í lífinu. Fjölskyldan verður þungamiðjan. Það er augljóst að þannig er því einnig farið hjá Tiger,“ sagði Harrington. 

Feðgarnir Tiger Woods and Charlie Woods fagna fugli.
Feðgarnir Tiger Woods and Charlie Woods fagna fugli. AFP

Rétt er að taka fram að góðgerðarmótið sem Tiger tók þátt í á dögunum reynir ekki nærri eins mikið á og hefðbundin mót atvinnumanna. Tveir og tveir keppa saman í liði þar sem hægt er að nýta betra höggið. Spilaðir voru tveir hringir en ekki fjórir og Tiger notaðist við golfbíl, sem ekki er leyfilegt á mótaröðinni. 

Woods-feðgarnir höfnuðu í 2. sæti en John Daly og sonur hans sigruðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert