Setti met á Havaí

Cameron Smith lék á 34 undir pari.
Cameron Smith lék á 34 undir pari. AFP

Efsti maður heimslistans í golfi, Jon Rahm frá Spáni, lék samtals á 33 höggum undir pari á Sentry Tournament of Champions á PGA-mótaröðinni en náði samt ekki að sigra á mótinu.

Ástralinn Cameron Smith gerði enn betur og lék á samtals 34 höggum undir pari en mótinu lauk í nótt. Smith setti þar með met á mótaröðinni en enginn hafði fyrr leikið á jafn mörgum höggum undir pari vallar á PGA-móti.

Smith lék á 65, 64, 64 og 65 höggum og sigraði í fjórða sinn á mótaröðinni á ferlinum en Smith er 28 ára gamall.

Cameron Smith sker sig oft úr á mótum út af …
Cameron Smith sker sig oft úr á mótum út af hárinu og skegginu. AFP

Mótið fór fram á Kapalua á Havaí og reyndist hressileg byrjun á nýju ári hjá kylfingunum. Völlurinn var fremur auðveldur viðureignar fyrir bestu kylfinga heims eins og skorið sýnir. Var mjúkur og brautirnar breiðar. Kylfingar þurftu að leika á 23 undir pari til að ná inn að vera á meðal tíu efstu í mótinu.

Patrick Cantlay, Collin Morikawa, Justin Thomas og Xander Schauffele léku allir vel í mótinu og virðast ferskir eftir vetrarfríið.

mbl.is