Guðrún Brá hefur leik í Keníu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili. Ljósmynd/LET

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili í Hafnarfirði, mun í ár taka þátt á LET Evrópumótaröðinni, sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, þriðja árið í röð.

Á fjórða tug móta eru á keppnisdagskrá mótaraðarinn og fer fyrsta mótið fram dagana 10. - 13. febrúar á Vipingo Ridge-vellinum í Keníu í Afríku.

Þar verður Guðrún Brá, sem er þrefaldur Íslandsmeistari, á meðal keppenda.

Á síðasta tímabili lék Guðrún Brá á lokamóti LET Evrópumótaraðarinnar annað árið í röð þegar hún lék á alls 16 mótum. Besti árangur hennar á árinu 2021 var 12. sæti.

Guðrún Brá endaði í 75. sæti á stigalistanum á LET Evrópumótaröðinni en árið 2020 endaði hún í sæti nr. 127 á stigalistanum.

Á heimslistanum hefur Guðrún Brá farið upp um tæplega 255 sæti á árinu 2021 en hún er nú í sæti nr. 620 á heimslistanum.

mbl.is