Ólafía snýr aftur eftir tæplega tveggja ára hlé

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir snýr aftur á golfvöllinn eftir hlé.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir snýr aftur á golfvöllinn eftir hlé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leikur á sínu fyrsta móti erlendis síðan í ágúst 2020 þegar hún verður á meðal þátttakenda á Jabra Ladies Open-mótinu á Evrópumótaröðinni 19.-21. maí næstkomandi. Leikið verður í Evian í Frakklandi.

Ólafía eignaðist sitt fyrsta barn með eiginmanni sínum Thomas Bojanowski 29. júní á síðasta ári. „Það verður ekkert grín að byrja á Evian-vellinum eftir svona langt hlé. Þetta er virkilega erfiður og krefjandi keppnisvöllur,“ sagði Ólafía í samtali við Golf.is.

Hún viðurkenndi einnig í viðtalinu að það væri öðruvísi að stunda íþróttina eftir að hún varð mamma. „Ég slæ mun styttra en ég var vön að gera. Það hefur hinsvegar gengið bara nokkuð vel að spila og aðlagast breytingunum. Hreyfingarnar í sveiflunni eru enn til staðar og þetta er eins og að fara að hjóla á ný eftir langt hlé,“ útskýrði Ólafía.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir verður einnig á meðal kylfinga á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert