Magnaður ráshópur í Tulsa

Tiger Woods, Rory McIlroy og Jordan Spieth á fyrstu holu …
Tiger Woods, Rory McIlroy og Jordan Spieth á fyrstu holu dagsins í Tulsa. AFP/Andrew Redington

Tiger Woods, Rory McIlroy og Jordan Spieth mynda einhvern öflugasta ráshóp sem sést hefur á risamóti í  golfi en þeir hófu keppni saman á PGA-meistaramótinu í Tulsa í Oklahóma um eittleytið í dag.

Tiger er einn sigursælasti kylfingur sögunnar og endurkoma hans á þessu ári eftir alvarlegt bílslys snemma á því síðasta hefur vakið umtalsverða athygli. Hann hefur unnið fimmtán risamót á ferlinum, það fyrsta árið 1997, þar af PGA-meistaramótið fjórum sinnum, síðast árið 2007.

Norður-Írinn Rory McIlroy hefur unnið fjögur risamót, reyndar öll á árunum 2011 til 2014, og Spieth, sem er yngstur af þeim, hefur unnið þrjú risamót, öll á árunum 2015 til 2017.

Þremenningarnir fóru af stað um klukkan 13 í dag að íslenskum tíma og McIlroy hefur byrjað best allra á mótinu en hann lék fyrstu sex holurnar á fjórum höggum undir pari.

mbl.is