Axel og Heiðrún í forystu á Akranesi

Axel Bóasson er í forystu í karlaflokki.
Axel Bóasson er í forystu í karlaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Axel Bóasson og Heiðrún Anna Hlynsdóttir eru í toppsætum B59 Hotel mótsins. Mótið er það fyrsta af sex í mótaröð Golfsambands Íslands í sumar. Leikið er á Garðavelli hjá Golfklúbbi Leynis á Akranesi.

Axel, sem leikur fyrir Keili, er á sex höggum undir pari eftir tvo hringi en hann lék annan hringinn í dag á 71 höggi, einu höggi undir pari. Hann lék fyrsta hringinn í gær á 67 höggum.

Aron Snær Júlíusson og Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG koma næstir á fimm höggum undir pari og stefnir því í spennandi lokahring hjá körlunum.

Heiðrún Anna er með fimm högga forystu á Jóhönnu Leu Lúðvíksdóttur eftir tvo hringi í kvennaflokki. Hún er á samtals einu höggi yfir pari en hún lék fyrsta hring á 71 höggi og annan hring á 74 höggum.

Kristín Sól Guðmundsdóttir er í þriðja sæti á sjö höggum yfir pari og María Eir Guðjónsdóttir í fjórða á átta höggum yfir pari.

Þriðji og síðasti hringur mótsins verður leikinn á morgun.

Heiðrún Anna Hlynsdóttir er efst í kvennaflokki.
Heiðrún Anna Hlynsdóttir er efst í kvennaflokki. Ljósmynd/Golf.is
mbl.is