Sigurður Arnar Garðarsson og Heiðrún Anna Hlynsdóttir fögnuðu sigri á B59 Hotel mótinu, fyrsta móti Golfsambands Íslands í sumar. Leikið var á Garðavelli hjá Golfklúbbi Leynis á Akranesi. Alls eru sex mót leikin á mótaröðinni.
Heiðrún, sem leikur fyrir Golfklúbb Selfoss, var með forystu frá fyrsta hring til hins þriðja og síðasta og vann að lokum með fimm högga mun. Hún lék samanlagt á fimm höggum yfir pari. Kristín Sól Guðmundsdóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar varð önnur og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur þriðja.
Sigurður Arnar var í öðru sæti fyrir lokahringinn í dag en hann tryggði sér sigurinn með glæsilegum þriðja hring sem hann lék á 68 höggum. Hann lék hringina þrjá á samanlagt níu höggum undir pari. Sigurður keppir fyrir GKG.
Axel Bóasson úr Keili, sem var í forystu fyrir hringinn, lék á 72 höggum og varð annar á sex höggum undir pari og Ingi Þór Ólafsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar þriðji á fjórum höggum undir pari.