„Ansi mikill tvískinnungur af þeirra hálfu“

Rory McIlroy.
Rory McIlroy. AFP/Michael Reaves

Norður-írski kylfingurinn Rory McIlroy heldur áfram að gagnrýna þá kylfinga sem hafa sagt sig úr PGA-mótaröðinni til þess að færa sig yfir til hinnar umdeildu LIV-mótaraðar, sem sádi-arabísk stjórnvöld standa að baki.

Bandaríski kylfingurinn Brooks Koepka, sem hefur unnið fjögur risamót, er nýjasta stóra nafnið sem bættist í hóp þeirra sem skipti yfir eftir að hafa áður sagst vera skuldbundinn PGA-mótaröðinni.

„Er ég hissa? Já, vegna þess sem hann hefur látið hafa eftir sér. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að ég er hissa á mörgum þeirra.

Þeir segja eitt og gera svo annað og ég skil það ekki. Ég veit ekki hvort það sé af lagalegum ástæðum, ég hef ekki hugmynd, en það er ansi mikill tvískinnungur af þeirra hálfu að segja eitt og gera svo annað, bæði opinberlega og í einrúmi,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi í gær.

Brooks Koepka.
Brooks Koepka. AFP/Rob Carr

Á Opna bandaríska meistaramótinu í síðustu viku kvartaði Koepka yfir því að umræður um LIV-mótaröðina væru sem „svart ský“ yfir risamótinu, þar sem honum gekk sjálfum illa og hafnaði í 55. sæti.

Í upphafi þessarar viku var það svo staðfest að Koepka væri búinn að færa sig yfir til LIV-mótaraðarinnar og myndi taka þátt á öðru móti hennar í Portland í Oregon-fylki í Bandaríkjunum í næstu viku.

mbl.is