Ósanngjarnt ef LIV-þátttakendur fá ekki að vera með

Cameron Smith.
Cameron Smith. AFP/Sam Greenwood

Ástralski kylfingurinn Cameron Smith, sem nýlega skipti frá PGA-mótaröðinni til hinnar umdeildu LIV-mótaraðar, segir að það væri ósanngjarnt ef kylfingum í þeirri síðarnefndu yrði meinuð þátttaka á risamótum í golfi.

Smith, sem er í öðru sæti á heimslistanum, vann Opna breska meistaramótið í júlí síðastliðnum, og var það fyrsta risamótið sem hann vinnur á ferlinum.

Kylfingum sem hafa skipt yfir til LIV-mótaraðarinnar, sem er fjármögnuð af sádi-arabískum stjórnvöldum, var leyft að taka þátt í Opna bandaríska meistaramótinu í júní og Opna breska meistaramótinu mánuði síðar en óvissa ríkir um hvort þeim verði leyft það í framtíðinni.

„Það væri kannski svolítið ósanngjarnt fyrir aðdáendur risamóta í golfi. Að mínu mati snúast risamótin um að hafa bestu kylfingana á bestu golfvöllunum. Vonandi náum við að greiða úr því,“ sagði Smith.

Til þess að öðlast þátttökurétt á risamótum í golfi þurfa kylfingar að vinna sér inn stig á heimslistanum. Efstu 50 kylfingarnir á heimslistanum á hverjum tíma eiga til dæmis að geta komist inn á risamótin. Þeir kylfingar sem taka þátt í mótum á vegum LIV-mótaraðarinnar vinna sér ekki inn slík stig. Kylfingar sem vinna viss mót á PGA og Evrópumótaröðinni geta einnig fengið keppnisrétt á risamótunum. Masters er hins vegar frábrugðið hinum þremur risamótunum hvað það varðar að þar eru færri keppendur og erfiðara að komast að. Sigurvegarar á risamótunum fá keppnisrétt á risamótunum næstu fimm árin. Auk þess er löng hefð fyrir því að þeir sem vinna Masters og The Open séu með keppnisrétt á þeim mótum eins lengi og þeir kæra sig um eða svo gott sem. 

„Að vera með 48 af bestu kylfingum heims að spila og fá ekki stig fyrir heimslistann tel ég vera nokkuð ósanngjarnt,“ bætti Smith við.

Hann verður einn af 48 kylfingum sem taka þátt í móti í Boston í Bandaríkjunum um helgina, sem verður fyrsta mótið á vegum LIV-mótaraðarinnar sem Smith tekur þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert