Tíu reyna að komast á Evrópumótaröðina

Hákon Örn Magnússon keppti í Portúgal í gær og dag.
Hákon Örn Magnússon keppti í Portúgal í gær og dag. Ljósmynd/seth@golf.is

Tíu íslenskir kylfingar freista þess í haust að komast inn á Evrópumótaröð karla í golfi og taka þátt í úrtökumótum sem fara fram víða um álfuna á næstu dögum og vikum.

Hákon Örn Magnússon úr GR og Aron Snær Júlíusson úr GKG eru komnir af stað á fyrsta stigi úrtökumóts í Palmela í Portúgal þar sem þeir hófu keppni í gær. Hákon lék tvo fyrstu hringina á 70 höggum, tveimur höggum undir pari og er sem stendur í 27.-35. sæti á fjórum höggum undir pari. Aron Snær lék á 73 og 70 höggum og er í 60.-68. sæti á einu höggi undir pari.

Axel Bóasson úr GK og Kristófer Karl Karlsson úr GM hefja keppni í Stokkhólmi 13. september.

Bjarki Pétursson, Sigurður Arnar Garðarsson og Kristófer Orri Þórðarson, allir úr GKG, keppa í Austurríki þar sem úrtökumótið hefst 14. september.

Andri Már Óskarsson úr GOS hefur keppni í Frakklandi þann 4. október en þessir átta verða allir á  fyrsta stigi úrtökumótanna.

Þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG og Haraldur Franklín Magnús úr GR mæta hinsvegar til leiks síðar í haust á öðru stigi mótanna.

Til að komast inn á Evrópumótaröðina þarf að fara í gegnum öll þrjú stig úrtökumótanna en lokaúrtökumótið fer fram í Tarragona á Spáni í byrjun nóvember þar sem 156 kylfingar keppa um 25 sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert