Vantaði aðeins meiri ákveðni um helgina

Haraldur Franklín Magnús á Opna mótinu á Carnoustie í Skotlandi …
Haraldur Franklín Magnús á Opna mótinu á Carnoustie í Skotlandi 2018. Hann er eini íslenski karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti. Ljósmynd/Páll Ketilsson

Atvinnukylfingurinn, Haraldur Franklín Magnús, úr GR, gerði vel á Open de Portugal-mót­inu á Áskor­enda­mótaröð Evr­ópu í golfi, sem lauk í Vau Óbidos í Portúgal í dag.

Haraldur hóf mótið af krafti og var í toppbaráttunni að loknum tveimur hringjum á 5 höggum undir pari Royal Óbidos-vallarins aðeins þremur höggum frá Englendingnum, Todd Clements og Philipp Mejow frá Þýskalandi sem leiddu mótið inn í helgina.

Haraldur lék á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari á þriðja hring í gær og á 70 höggum eða á tveimur höggum undir pari í dag. Hann lék hringina fjóra samtals á 280 höggum, 69, 70, 71 og 70, eða á 8 höggum undir pari vallarins og hafnaði í 22.-26. sæti.

Haraldur lék nokkuð stöðugt golf á mótinu, fékk 8 skolla og 16 fugla en hann fékk par á hinum 48 holunum.

Haraldur Franklín sagðist í samtali við mbl.is, vera nokkuð sáttur við spilamennskuna og að allt væri á réttri leið. „Ég gerði ekki mörg mistök en það vantaði aðeins meiri ákveðni um helgina til að gera mjög vel“. Haraldur sagði völlinn hafa verið blautan og að hann hefði spilast langur. „Það var mikið af hættum í kringum flatirnar en vel hægt að skora“, sagði Haraldur Franklín Magnús að lokum.

Það var mikil spenna á toppnum á lokahringnum og lauk mótinu með alfrönsku umspili milli, þeirra David Ravetto, Félix Mory og Pierre Pineau. Þeir luku allir leik á 15 höggum undir pari á hringjunum fjórum. Það var hinn síðast nefndi sem stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa sett ótrúlegt pútt í fyrir erni á fyrstu holu í umspili. 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, úr GKG, náði sér ekki á strik á fyrsta hring er hann lék á 78 höggum eða á 6 höggum yfir pari. Guðmundur fékk fjórfaldan skolla og tvo skolla skömmu síðar. Hann kom til baka á öðrum hring er hann lék á 2 höggum undir pari en það dugði ekki til. Guðmundur var fjórum höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.

Næsta mót á Áskorendamótaröðinni er í næstu viku í Frakklandi og er Haraldur Franklín skráður til leiks en Guðmundur Ágúst á biðlista ásamt þeim Andra Þór Björnssyni, úr GR, og Bjarka Péturssyni, úr GKG.

mbl.is